Skoðun

Pössum upp á per­sónu­af­sláttinn

Alma Ýr Ingólfsdóttir og Helgi Pétursson skrifa

ÖBÍ réttindasamtök og Landssamband eldri borgara skora á Alþingi að fresta áformum um gildistöku laga um brottfall persónuafsláttar örorku- og ellilífeyrisþega sem búsettir eru erlendis.

Alþingi samþykkti lög um brottfall persónuafsláttarins undir lok árs 2023 en gildistöku laganna var frestað til 1. janúar 2025. ÖBÍ réttindastamtök og Landssamband eldri borgara hafa beitt sér fyrir því að lögin verði felld úr gildi. Nú hefur þing verið rofið og ljóst að mati samtakanna að þingið mun ekki ljúka umfjöllun um málið fyrir fyrirhugaða gildistöku laganna 1. janúar 2025. Því skora samtökin á Alþingi að fresta gildistöku laganna á ný um að minnsta kosti eitt ár. Samtökin hafa sent nefndum Alþingis og þingflokkum stjórnmálaflokka sameiginlega áskorun þess efnis.

Ástæða þess að lögum um brottfall persónuafsláttarins var frestað til 1. janúar 2025 var að efnahags- og viðskiptanefnd taldi nauðsynlegt að áhrif laganna á lífeyrisþega búsettum erlendis yrðu könnuð nánar. Slík könnun hefur ekki farið fram af hálfu Alþingis.

Til ÖBÍ réttindasamtaka og Landssambands eldri borgara hefur leitað fjöldi einstaklinga sem horfir fram á að framfærsla þeirra muni lækka umtalsvert frá og með 1. janúar 2025. Vitað er að fjöldi lífeyristaka búsettur erlendis var 5.136 árið 2023. Að óbreyttu mun framfærsla fjölda þeirra lækka sem nemur persónuafslætti á Íslandi og áhrif ákvæðisins að öðru leiti ókönnuð. Samtökin telja því óhjákvæmilegt að lögunum verði frestað á ný.

Höfundar eru formenn ÖBÍ réttindasamtaka og Landssambands eldri borgara




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×