Uppgjörið: Georgía - Ísland 25-30 | Íslenska liðið spýtti í lófana og gerði nóg í Georgíu Hjörvar Ólafsson skrifar 10. nóvember 2024 15:36 Ómar Ingi Magnússon og Óðinn Þór Ríkharðsson glaðbeittir í Höllinni á miðvikudag. vísir/Anton Ísland hefur fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í undankeppni EM 2026 í handbolta karla. Íslenska liðið gerði góða ferð til Georgíu og sótti tvo punkta þangað. Flottur kafli um miðbik seinni hálfleiks lagði grunninn að sigrinum. Leikmenn íslenska liðsins virtust taka fyrri hálfleikinn í það að hrista úr skrokknum á sér ferðaþreytuna eftir langt ferðalag til Georgíu. Herslumuninn vantaði upp á að varnarleikurinn myndi virka og kraft, áræðni og flot vantaði í seinni bylgju hraðaupphlaup Íslands. Ekki hjálpaði það til við að auka flæðið í leiknum að bras var á klukkunni en það afsakar þó ekki þá níu tapaða bolta sem íslenska liðið var með fyrstu 30 mínútur leiksins. Ómar Ingi Magnússon sá þó til þess að Ísland fór með eins marks forskot, 13-14, inn í hálfleikinn með marki sínu úr vítakasti í síðasta skoti fyrri hálfleiksins. Arnar Freyr Arnarsson kom svo með festuna sem vantaði inn í vörn íslenska liðsins í seinni hálfleik og ferskir vindar komu með Hauki Þrastarsyni og Viggó Kristjánssyni. Þá nýtti Orri Freyr Þorkelsson færi sín vel úr vinstra horninu. Það sama má raunar segja um aðra hornamenn íslenska liðsins sem tóku þátt í þessum leik, það er þá félaga Bjarka Má Elísson og Óðinn Þór Ríkharðsson. Íslenska liðið skrúfaði fyrir sírennsli tæknifeila í seinni hálfleik og þeim skiptum þar sem boltanum var kastað frá sér undir lítilli pressu fækkaði umtalsvert. Viktor Gísli Hallgrímsson var með stöðuga markvörslu og sá til þess að Georgíumenn komust aldrei yfir í þessum leik. Fagmannleg frammistaða íslenska liðsins sem gerði nóg til þess að sigla sigrinum í höfn og setja stigin tvö í farteskið. Ísland hefur fjögur stig eftir sigra gegn Bosníu og nú Georgíu en næstu leikir liðsins í undankeppninnni eru tvær viðureignir við Grikklandi heima og að heiman í mars á næsta ári. Undankeppninni lýkur svo með leikjum við Georgíu og Bosníu í maí. Atvik leiksins Segja má að íslenska liðið hafi sett tóninn fyrir það sem koma skal í fyrstu sókn sinni í seinni hálfleik. Boltinn fékk að fljóta vel og Haukur hækkaði tempóið í stimplun og árásum svo um munaði. Íslenska liðið leit ekki um öxl og byggði upp þægilegt forskot sem hélt allt til enda. Stjörnur og skúrkar Það var Selfossslagsíða í markaskorun íslenska liðsins í þessum leik en Janus Daði og Ómar Ingi skoruðu mest, sex mörk hvor, og Haukur Þrastarson kom næst þar á eftir með sín fjögur. Mörkin sem Haukur skoraði komu öll í seinni hálfleik en hann skapaði þar að auki fjölmörg færi fyrir samherja sína. Dómarar leiksins Makedónska dómararparið Dimitar Mitrevski og Blagojche Todorovski hefur líklega fengið meira krefjandi verkefni á sínum ferli sem flautukonstertmeistarar en þennan leik sem náði aldrei neinu flugi í hraða, ákefð og hörku. Þeir fá slétta sjöu fyrir sín fumlausu og heilt yfir hnökralausu störf. Stemming og umgjörð Georgíumenn voru rækilega studdir af stuðningsmönnum sínum sem létu vel í sér heyra. Það mætti kalla á rafvirkja fyrir næsta leik til þess að fara yfir klukkuna í höllinni. Gamla góða borðtennisstigataflan stóð hins vegar vel fyrir sínu og allt fór þetta fram samkvæmt kúnstarinnar reglum þannig séð. Landslið karla í handbolta EM karla í handbolta 2026
Ísland hefur fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í undankeppni EM 2026 í handbolta karla. Íslenska liðið gerði góða ferð til Georgíu og sótti tvo punkta þangað. Flottur kafli um miðbik seinni hálfleiks lagði grunninn að sigrinum. Leikmenn íslenska liðsins virtust taka fyrri hálfleikinn í það að hrista úr skrokknum á sér ferðaþreytuna eftir langt ferðalag til Georgíu. Herslumuninn vantaði upp á að varnarleikurinn myndi virka og kraft, áræðni og flot vantaði í seinni bylgju hraðaupphlaup Íslands. Ekki hjálpaði það til við að auka flæðið í leiknum að bras var á klukkunni en það afsakar þó ekki þá níu tapaða bolta sem íslenska liðið var með fyrstu 30 mínútur leiksins. Ómar Ingi Magnússon sá þó til þess að Ísland fór með eins marks forskot, 13-14, inn í hálfleikinn með marki sínu úr vítakasti í síðasta skoti fyrri hálfleiksins. Arnar Freyr Arnarsson kom svo með festuna sem vantaði inn í vörn íslenska liðsins í seinni hálfleik og ferskir vindar komu með Hauki Þrastarsyni og Viggó Kristjánssyni. Þá nýtti Orri Freyr Þorkelsson færi sín vel úr vinstra horninu. Það sama má raunar segja um aðra hornamenn íslenska liðsins sem tóku þátt í þessum leik, það er þá félaga Bjarka Má Elísson og Óðinn Þór Ríkharðsson. Íslenska liðið skrúfaði fyrir sírennsli tæknifeila í seinni hálfleik og þeim skiptum þar sem boltanum var kastað frá sér undir lítilli pressu fækkaði umtalsvert. Viktor Gísli Hallgrímsson var með stöðuga markvörslu og sá til þess að Georgíumenn komust aldrei yfir í þessum leik. Fagmannleg frammistaða íslenska liðsins sem gerði nóg til þess að sigla sigrinum í höfn og setja stigin tvö í farteskið. Ísland hefur fjögur stig eftir sigra gegn Bosníu og nú Georgíu en næstu leikir liðsins í undankeppninnni eru tvær viðureignir við Grikklandi heima og að heiman í mars á næsta ári. Undankeppninni lýkur svo með leikjum við Georgíu og Bosníu í maí. Atvik leiksins Segja má að íslenska liðið hafi sett tóninn fyrir það sem koma skal í fyrstu sókn sinni í seinni hálfleik. Boltinn fékk að fljóta vel og Haukur hækkaði tempóið í stimplun og árásum svo um munaði. Íslenska liðið leit ekki um öxl og byggði upp þægilegt forskot sem hélt allt til enda. Stjörnur og skúrkar Það var Selfossslagsíða í markaskorun íslenska liðsins í þessum leik en Janus Daði og Ómar Ingi skoruðu mest, sex mörk hvor, og Haukur Þrastarson kom næst þar á eftir með sín fjögur. Mörkin sem Haukur skoraði komu öll í seinni hálfleik en hann skapaði þar að auki fjölmörg færi fyrir samherja sína. Dómarar leiksins Makedónska dómararparið Dimitar Mitrevski og Blagojche Todorovski hefur líklega fengið meira krefjandi verkefni á sínum ferli sem flautukonstertmeistarar en þennan leik sem náði aldrei neinu flugi í hraða, ákefð og hörku. Þeir fá slétta sjöu fyrir sín fumlausu og heilt yfir hnökralausu störf. Stemming og umgjörð Georgíumenn voru rækilega studdir af stuðningsmönnum sínum sem létu vel í sér heyra. Það mætti kalla á rafvirkja fyrir næsta leik til þess að fara yfir klukkuna í höllinni. Gamla góða borðtennisstigataflan stóð hins vegar vel fyrir sínu og allt fór þetta fram samkvæmt kúnstarinnar reglum þannig séð.
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26 | Einn stærsti sigur íslensks kvennafélagsliðs Handbolti
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26 | Einn stærsti sigur íslensks kvennafélagsliðs Handbolti