Körfubolti

Gafst upp á að læra frönskuna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Styrmir Snær hefur það gott í atvinnumennskunni í Belgíu en illa gengur að læra frönskuna.
Styrmir Snær hefur það gott í atvinnumennskunni í Belgíu en illa gengur að læra frönskuna. Vísir/Sigurjón

Styrmir Snær Þrastarson nýtur lífsins í atvinnumennskunni í Belgíu. Hann undirbýr sig ásamt landsliði Íslands fyrir komandi leiki við Ítalíu í undankeppni EM 2025.

„Það er mjög kalt. Ég hef ekki verið vanur þessu undanfarið en það er alltaf gott að koma heim í kuldann,“ segir Styrmir Snær. Hann er á sínu öðru ári með liði Belfius Mons-Hainaut í Belgíu og líkar lífið vel þar ytra.

„Það er mjög gott. Það er hlýrra heldur en hér. Það hefur gengið vel undanfarið og allt mjög gott,“ segir Styrmir sem hefur aðlagast belgísku deildinni vel.

„Maður er farinn að þekkja getustigið þarna úti. Við höfum gert betur en í fyrra. Við erum með sama þjálfarann og erum með betra lið núna en í fyrra. Það gengur vel,“ segir Styrmir sem þykir gott að halda kyrru fyrir þar í landi eftir að hafa verið á flakki milli Þorlákshafnar og Davidson-háskólans í Bandaríkjunum árin á undan.

Klippa: Gengur illa að ná frönskunni

„Þetta er í fyrsta skipti í einhver fjögur ár sem ég er í sama liðinu tvö ár í röð. Það er gott að ná smá festu og byggja ofan á þetta,“ segir Styrmir.

Félagið er staðsett í Vallóníu sem er í frönskumælandi hluta Belgíu. Óhætt er að segja að Styrmi gangi betur innan vallar en að læra frönskuna.

„Maður þurfti að fara að sjá um sjálfan sig. Maður er búinn að vera að læra frönskuna. Það er erfitt tungumál og ég held við bara við íslenskuna og enskuna,“ segir Styrmir sem hefur í raun gefist upp á því að læra málið.

„Ég kann að segja hæ og nei og bæ. En ég læt það bara nægja.“

Ísland mætir Ítalíu í Laugardalshöll annað kvöld í þriðja leik liðsins í undankeppni EM á næsta ári. Liðin mætast svo ytra eftir helgi.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×