Körfubolti

„Sá sem lak þessu er skít­hæll“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekkert gengur hjá Joel Embiid og félögum í Philadelphia 76ers.
Ekkert gengur hjá Joel Embiid og félögum í Philadelphia 76ers. getty/Justin Ford

Joel Embiid vandar þeim sem lak upplýsingum frá liðsfundi Philadelphia 76ers á mánudaginn ekki kveðjurnar. Á fundinum skammaði Tyrese Maxey, samherji Embiids, stórstjörnuna fyrir að mæta alltaf of seint.

„Sá sem lak þessu er skíthæll,“ sagði Embiid er hann var spurður út í fréttirnar af fundinum þar sem Maxey tók hann á beinið.

„Við töluðum um margt. Ég vil ekki fara út í smáatriði en þessi hluti var kannski fjörutíu sekúndur. En þetta er Joel Embiid svo hlutirnir verða alltaf blásnir upp. Ég tek þessu. Ég er ástæða alls svo ætli ég taki ekki á mig sökina fyrir allt.“

Að sögn Embiids mætti hann örsjaldan seint og það var þegar hann var ekki að spila. Hann viðurkenndi að hann þyrfti að gera betur en kvaðst vera orðinn þreyttur á allri neikvæðninni í kringum sig.

Sixers hefur byrjað tímabilið hræðilega og tapað tólf af fyrstu fjórtán leikjum sínum. Meiðsli hafa sett stórt strik í reikning Philadelphia og Embiid hefur til að mynda aðeins spilað fjóra leiki í vetur.

Miðherjinn átti stórleik þegar Philadelphia tapaði fyrir Memphis Grizzlies, 117-111, í nótt. Embiid skoraði 35 stig og tók ellefu fráköst en það dugði skammt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×