Erlent

Sækja ó­vænt og hratt að Aleppo

Samúel Karl Ólason skrifar
Fylgst með átökum í Idlib-héraði í Sýrlandi í dag.
Fylgst með átökum í Idlib-héraði í Sýrlandi í dag. AP/Ghaith Alsayed

Uppreisnarmenn og vígahópar gerðu í gær umfangsmiklar árásir á hersveitir Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, og aðrar sveitir sem styðja hann vestur af borginni Aleppo í Idlib-héraði í gær. Útlit er fyrir að hóparnir hafi lagt undir sig stórt svæði við borgina og að sóknin hafi náð að jaðri borgarinnar.

Þetta er í fyrsta sinn í nokkur ár sem hóparnir gera árás af þessari stærðargráðu og lítur yfir fyrir að hún hafi komið Assad-liðum í opna skjöldu. Árásin hélt svo áfram í morgun og er útlit fyrir að þeir hafi náð enn meiri árangri.

Uppreisnarmennirnir eru sagðir hafa handsamað þó nokkra skrið- og bryndreka.

Hóparnir sem koma að sókninni segjast hafa hernumið að minnsta kosti fimmtán þorp í jaðri Aleppo, eina herstöð og handsamað fjölda hermanna. Þá hafa fregnir borist af því að nokkrir háttsettir yfirmenn í sýrlenska hernum hafi verið felldir í árásinni og íranskur herforingi sömuleiðis en Byltingarvörður Írans hefur stutt dyggilega við bakið á Assad í gegnum árin, auk vígamanna Hezbollah og Rússa.

Uppreisnar- og vígamenn notuðu fjölda sjálfsprengidróna við árásina í gær.

Sóknin er leidd af sveitum Hayat Tahrir al-Sham, eða HTS, sem er í einföldu máli sagt vígahópur sem tengdist á árum áður al-Qaeda og hét þá Nusra Front. Hópurinn er nú talinn sá stærsti af uppreisnarhópum í Sýrlandi. Áhugasamir geta lesið frekar um HTS á vef Center For Strategic & International Studies.

Áhugasamir geta séð grófa mynd af stöðunni við Aleppo á korti, hér á vef Liveuamap.

Árásum Assad-liða gegn uppreisnarhópum í norðvesturhluta Sýrlands hefur fjölgað nokkuð á undanförnum vikum. Á sama tíma hafa bandamenn Assad í Hezbollah haft öðrum hlutum að hneppa í Líbanon en vopnahlé var staðfest milli Ísarel og Líbanon í gær, sama dag og árásirnar í grennd Aleppo hófust.

Sjá einnig: Vopna­hléið heldur en í­búar Gasa telja sig svikna

Talið er að margir vígamenn Hezbollah haldi til í tveimur bæjum nærri Aleppo, sem uppreisnarhóparnir eru nú mjög nærri, samkvæmt heimildarmönnum Reuters.

Í gær birtu uppreisnarmenn myndir af líki manns sem á að vera rússneskur sérsveitarmaður og birtu þeir einnig myndir af vopnum sem þeir sögðust hafa tekið af rússneskum hermönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×