Enski boltinn

Leik­maður Manchester United neitaði að klæðast regn­boga­lituðum jakka

Aron Guðmundsson skrifar
Leikmenn Manchester United fyrir leik á síðasta tímabili í svipuðum jakka og er nú ljóst að þeir munu ekki klæðast
Leikmenn Manchester United fyrir leik á síðasta tímabili í svipuðum jakka og er nú ljóst að þeir munu ekki klæðast Vísir/Getty

Hætt var við að láta leikmenn enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United klæðast jakka framleiddan af Adidas, til stuðnings baráttu hinsegin fólks, fyrir leik gegn Everton um nýliðna helgi eftir að einn leikmaður liðsins neitaði að taka þátt. Ekki eru allir á eitt sáttir með þá ákvörðun í leikmannahópi liðsins. 

Það er The Athletic sem greinir frá núna í morgun en umræddur leikmaður sem neitaði að klæðast jakkanum var varnarmaðurinn Noussair Mazraoui sem gekk til liðs við félagið frá Bayern Munchen fyrir yfirstandandi tímabil. 

Mazraoui sagðist ekki vilja taka þátt í því sem átti að vera sameiginleg stuðningsyfirlýsing leikmanna Manchester United við baráttu hinsegin fólks, sökum þess að hann sé múslimi.  

Noussair Mazraoui í leik með Manchester UnitedVísir/Getty

Undanfarin tvö tímabil hafa leikmenn Manchester United klæðst svipuðum jakka fyrir leik í ensku úrvalsdeildinni. Sökum þess að Mazraoui vildi ekki klæðast jakkanum var ákveðið hætta við framtakið svo að marakóski landsliðsmaðurinn yrði ekki eini leikmaður liðsins til þess að klæðast ekki jakkanum. 

The Athletic hefur fyrir því heimildir að ekki séu allir á eitt sáttir með þá ákvörðun að klæðast ekki umræddum jökkum. Í yfirlýsingu sem að Manchester United sendi The Athletic segir að félagið taki vel á móti stuðningsfólki með alls konar bakgrunn. Þar með talið hinsegin fólk og að félagið sé leggi áherslu á fjölbreytileika og inngildingu í sínu starfi. 

Bruno Fernandes með regnbogalitað fyrirliðaband í leiknum gegn Everton um síðastliðna helgiVísir/Getty

Enska úrvalsdeildin hefur undanfarin ár lagt mikið upp úr því að vera með sýnilegan stuðning við baráttu hinsegin fólks. Meðal annars með regnbogalituðum hornfánum, fyrirliðaböndum sem og skóreimum. 

Regnbogaborði á Old TraffordVísir/Getty

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að Mazraoui er gagnrýndur fyrir afstöðu sína gegn sýnilegum stuðningi við baráttu hinsegin fólks. Hann var gagnrýndur á sínum tíma sem leikmaður Bayern Munchen og létu stuðningsmenn félagsins útbúa borða þar sem á stóð: „Allir litir eru fallegir. Í Toulouse, Munchen og allsstaðar. Sýndu gildum okkar virðingu Mazraoui.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×