Viðskipti innlent

For­stjóri Dominos til N1

Árni Sæberg skrifar
Magnús Hafliðason hefur verið forstjóri Domino's hér á landi sem og víðar. 
Magnús Hafliðason hefur verið forstjóri Domino's hér á landi sem og víðar.  Dominos

Magnús Hafliðason, sem hefur verið forstjóri Dominos á Íslandi undanfarin ár hefur verið ráðinn forstjóri N1.

Í tilkynningu Festi, eiganda N1, til Kauphallar segir að Magnús taki samhliða sæti í framkvæmdastjórn Festi snemma á nýju ári.

Magnús sé þrautreyndur rekstrar- og markaðsmaður með yfir 25 ára reynslu bæði á Íslandi og í Skandinavíu. Hann hafi síðastliðin þrjú ár gegnt starfi forstjóra Dominos á Íslandi. Áður hafi hann verið fram­kvæmda­stjóri Dom­in­os í Dan­mörku 2006 til 2007, rekstr­ar- og markaðsstjóri Dominos á Íslandi 2011 til 2014, fram­kvæmda­stjóri Dom­in­os í Nor­egi 2014 til 2017 og sér­fræðing­ur í rekstr­ar- og markaðsmá­l­um á er­lend­um mörkuðum Dom­in­os Pizza Group á ár­un­um 2018-2019. 

Hann hafi verið framkvæmdastjóri Joe and the Juice á árunum 2019 til 2020 áður en hann tók við sem forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Sýnar árið 2020 og sat til 2021. Magnús sé með Executive MBA gráðu frá Háskóla Íslands.

Taki við öflugu félagi

„Við erum gríðarlega spennt að fá Magnús Hafliðason til liðs við okkur og trúum því að hann sé rétti maðurinn til að leiða N1 áfram þar sem þekking hans og reynsla í rekstrar- og markaðsmálum ásamt góðri innsýn í tækni tengdri þjónustuupplifun viðskiptavina muni styðja við þá vegferð sem N1 er á. Magnús tekur við gríðarlega öflugu félagi sem er statt í miðjum orkuskiptum og klárt að sækja enn frekar fram. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn og hlökkum til samstarfsins,“ er haft eftir Ástu Sigríði Fjeldsted, forstjóra Festi.

„Það er mér mikill heiður að taka við starfi framkvæmdastjóra N1, félags með langa og merka sögu sem nær aftur til ársins 1913. N1 hefur verið leiðandi afl á sínum mörkuðum og ég er afar spenntur fyrir þeim tækifærum sem felast í því að byggja á þeim trausta grunni og leiða félagið inn í nýja tíma. Fyrir höndum eru fjölmörg spennandi verkefni, og félagið er í einstakri stöðu til að styrkja sig enn frekar í takt við þær samfélagsbreytingar sem eru í gangi. Ég er fullur eftirvæntingar og hlakka til að takast á við verkefnið í samstarfi við þann hæfileikaríka hóp sem starfar hjá félaginu,“ er haft eftir Magnúsi.

Reynir verður til aðstoðar

Samhliða ráðningu Magnúsar taki Reynir Leósson við stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra N1. Reynir hafi gegnt starfi forstöðumanns fyrirtækjasviðs síðastliðin þrjú ár og muni áfram sinna því en taki jafnframt að sér víðtækari ábyrgð innan félagsins til að styðja við frekari sókn á breiðari grunni.

„Reynir er mjög öflugur stjórnandi sem hefur náð góðum árangri á undanförnum árum og styrkt stöðu okkar á fyrirtækjamarkaði. Hann mun reynast félaginu og viðskiptavinum vel í nýju hlutverki,“ er haft eftir Ástu Sigríði. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×