Innlent

Hellti bensíni og bar eld að bílum í Kópa­vogi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Maðurinn bar eldinn að bílum við verkstæði í Kópavogi. Myndin er úr safni.
Maðurinn bar eldinn að bílum við verkstæði í Kópavogi. Myndin er úr safni. Getty

Karlmaður hefur verið dæmdur í sex mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tvö brot sem hann framdi á þessu ári.

Fyrra brotið framdi maðurinn í janúar fyrir utan bílaverkstæði við Smiðjuveg í Kópavogi, en þar var honum gefið að sök að hella bensíni og borið eld að bílum. Afleiðingarnar urðu þær að mikið eignatjón varð á bílunum.

Seinna brotið framdi maðurinn í apríl. Þar var honum gefið að sök að aka bíl án ökuréttinda og undir áhrifum áfengis um Nýbýlaveg í Kópavogi. Akstrinum lauk með umferðaróhappi á gatnamótum Nýbýlavegar og Dalvegar.

Í ákæru segir að maðurinn hafi ekki sinnt skyldum sínum heldur hlaupið af vettvangi. Lögreglan hafi síðan haft afskipti af honum á veitingastað í Engihjalla, en þá hafi hann neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu um að nema staðar. Þá hafi hann einnig neitað að gangast undir blóðsýnatöku og þar með neita að hjálpa við rannsókn málsins.

Fyrir dómi játaði maðurinn sök og var hann því sakfelldur.

Síðasta haust hlaut þessi sami maður tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og þjófnað.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn sex mánaða fangelsisdóm. Þá er honum gert að greiða 618 þúsund í skaðabætur vegna bílaíkveikjunnar, sem og annan kostnað í málinu, sem hleypur á 1,3 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×