Erlent

Réttað yfir ung­lingi vegna „níðings­veiða“

Kjartan Kjartansson skrifar
Finnska lögreglan fordæmir „níðingsveiðar“ og ítrekar að það eigi aðeins að vera í hennar höndum að rannsaka glæpi og hafa hendur í hári níðinga.
Finnska lögreglan fordæmir „níðingsveiðar“ og ítrekar að það eigi aðeins að vera í hennar höndum að rannsaka glæpi og hafa hendur í hári níðinga. Vísir/Getty

Réttarhöld yfir sautján ára gömlum pilti sem er ákærður fyrir tilraun til manndráps hófust í Finnlandi í dag. Hann er sakaður um að hafa mælt sér mót við mann sem sóttist eftir að komst í kynni við pilta undir lögaldri gagngert til þess að drepa hann. Athæfið hefur verið kallað „níðingsveiðar“ á samfélagsmiðlum.

Pilturinn var sextán ára gamall þegar hann setti sig í samband við karlmann í gegnum netið en hann falaðist eftir því að komast í kynni við unga pilta. Þeir mæltu sér mót á heimili karlmannsins í Vantaa norður af höfuðborginni Helsinki í ágúst.

Þegar þangað var komið réðst pilturinn á manninn með hnífi og stakk hann ítrekað. Manninum tókst að standa atlöguna af sér og koma piltinum út úr íbúðinni. Hann lifði árásina af, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE.

Að sögn lögreglu vakti fyrir piltinum að taka lögin í eigin hendur og að hann hefði ætlað sér að drepa fórnarlambið. Tveir aðrir unglingar, sem voru sautján og átján ára þegar árásin átti sér stað, voru ákærðir fyrir að aðstoða piltinn.

Árásin er sögð hluti af því sem hefur verið kallað „níðingsveiðar.“ Nokkur slík tilfelli hafa komið upp víðs vegar um heim undanfarin ár. Veiðarnar ganga út á að fólk læst vera börn á samfélagsmiðlum til þess að tæla barnaníðinga og afhjúpa þá. Þær enda gjarnan á því að „veiðimennirnir“ mæli sér mót við meinta níðinga, taki fund þeirra upp á myndband og birti á netinu.

Finnska lögreglan segir að nokkur mál af þessu tagi hafi komið upp þar í landi en árásin í Vantaa sé það alvarlegasta til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×