Sport

Sigursælasti tenniskappi Suður-Kóreu þarf að fara í herinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kwon Soon-woo er núna í 342. sæti heimslistans í tennis.
Kwon Soon-woo er núna í 342. sæti heimslistans í tennis. getty/Mark Brake

Kwon Soon-woo, tenniskappi frá Suður-Kóreu, þarf að gera hlé á ferli sínum þar sem hann þarf að gegna herþjónustu.

Í janúar fer Kwon í herinn og verður þar næstu átján mánuðina. Allir karlmenn í Suður-Kóreu á aldrinum 18-35 ára þurfa að gegna herþjónustu. Aðeins örfáar undantekningar eru veittar á því.

Kwon hefði getað sloppið við herþjónustuna ef hann hefði unnið gull á Asíuleikunum í fyrra. Hann datt hins vegar út í 1. umferð í einliðaleik og fékk brons í tvíliðaleik.

Hinn 27 ára Kwon stefnir á að snúa aftur af krafti á tennisvöllinn eftir að herþjónustunni lýkur.

Kwon er eini Suður-Kóreumaðurinn sem hefur unnið tvo ATP-titla. Hann hefur hæst komist í 52. sæti heimslistans í tennis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×