Körfubolti

Durant hatar nýja fyrir­komu­lagið í Stjörnuleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Durant vill bara að úrvalslið Austur- og Vestur-deildarinnar mætist í Stjörnuleiknum í NBA og ekkert kjaftæði.
Kevin Durant vill bara að úrvalslið Austur- og Vestur-deildarinnar mætist í Stjörnuleiknum í NBA og ekkert kjaftæði. getty/Alex Goodlett

Kevin Durant, leikmaður Phoenix Suns, er ekki hrifinn af nýju fyrirkomulagi Stjörnuleiksins í NBA svo vægt sé til orða kveðið.

Fram til 2018 mættust alltaf úrvalslið Austur- og Vesturdeildarinnar í Stjörnuleiknum. Því var breytt þar sem tvær stjörnur leiddu lið sem voru valin af aðdáendum, fjölmiðlafólki og leikmönnum í NBA. Notast var við það fyrirkomulag í sex ár.

Úrvalslið Austur- og Vesturdeildarinnar mættust í fyrra en nú hefur NBA aftur gert breytingar á fyrirkomulagi Stjörnuleiksins. 

Á næsta ári verða Stjörnuleikmenn valdir í þrjú lið af Inside the NBA-mönnunum Charles Barkley, Kenny Smith og Shaquille O'Neal og munu þau keppa ásamt liði skipuðu ungum stjörnum. Leikmenn í sigurliðinu fá 125 þúsund Bandaríkjadali (17,3 milljónir íslenskra króna) í sinn hlut.

Durant, sem var valinn maður leiksins í Stjörnuleiknum 2012 og 2019, er ekki spenntur fyrir nýja fyrirkomulaginu.

„Ég hata þetta. Gjörsamlega hata þetta. Hræðilegt. Öll fyrirkomulögin hafa verið hræðileg að mínu mati. Við ættum að fara aftur í austur gegn vestur og bara spila leik. Við ættum að hafa þetta hefðbundið,“ sagði Durant.

„Við sjáum hvernig þetta virkar. Þú veist aldrei. Kannski hef ég rangt fyrir mér. Ég er bara gaur með skoðun.“

Durant hefur fjórtán sinnum spilað í Stjörnuleiknum. Hann var fyrirliði síns liðs í leikjunum 2021 og 2022.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×