Handbolti

Aftur­elding í bikarúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birgir Steinn Jónsson var mjög góður í liði Aftureldingar í kvöld.
Birgir Steinn Jónsson var mjög góður í liði Aftureldingar í kvöld. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Afturelding varð í kvöld annað liðið á eftir Stjörnunni til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Powerade bikars karla í handbolta.

Afturelding mætti norður og vann tveggja marka sigur á KA-mönnum í KA-húsinu, 28-26.

Afturelding varð bikarmeistari fyrir tveimur árum en komst ekki í bikarúrslitin í fyrra.

Afturelding er sex sætum ofar í töflunni og vann ellefu marka sigur í deildarleik liðanna fyrr í vetur. Það bjuggust við flestir við sigri gestanna.

KA-menn voru sýnd veiði en ekki gefin og þeir bitu vel frá sér í kvöld.

KA-menn voru með frumkvæðið stærsta hluta fyrri hálfleiksins og náðu mest tveggja marka forskoti. Þeir voru 10-8 en Mosfellingar náðu undirtökunum í lok hálfleiksins og voru komnir einu marki yfir fyrir hálfleik, 13-12.

Mosfellingar voru komnir fjórum mörkum yfir, 18-14, eftir góða byrjun á seinni hálfleik og eftir það var á brattan að sækja fyrir heimamenn.

KA-menn gáfust þó hvergi nærri upp og jöfnuðu metin með því að skora fjögur mörk í röð.

Afturelding var áfram skrefinu á undan en spennan hélst allt til leiksloka. Mosfellingum tókst þá að landa sigri og sæti á bikarúrslitahelginni.

Birgir Steinn Jónsson var öflugur hjá Aftureldingu með átta mörk úr níu skotum. Þeir Þorvaldur Tryggvason og Árni Bragi Eyjólfsson skoruðu báðir fjögur mörk.

Dagur Árni Heimisson skoraði átta mörk fyrir KA og Einar Rafn Eiðsson var með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×