Handbolti

Ó­sáttir Harðar­menn stofnuðu kröfu í heima­banka dómara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik með Herði frá því liðið lék í Olís-deild karla.
Úr leik með Herði frá því liðið lék í Olís-deild karla. vísir/hulda margrét

Handknattleiksdeild Harðar fékk 110 þúsund króna sekt vegna kröfu sem var stofnuð í heimabanka dómara sem dæmdi leik Harðar 2 og Vængja Júpíters í 2. deild karla.

Aganefnd HSÍ barst þann 10. desember erindi frá framkvæmdastjóra sambandsins vegna hegðunar forsvarsmanns Harðar eftir leikinn gegn Vængjum Júpíters 30. nóvember.

Framkvæmdastjóra HSÍ bárust upplýsingar um að umræddur aðili hafi ítrekað sett sig í samband við annan dómara leiksins og ekki látið af þeirri hegðun þrátt fyrir óskir um það. Þá hafi handknattleiksdeild Harðar stofnað kröfu í heimabanka dómarans að upphæð 150 þúsund krónur.

Í kjölfarið barst aganefnd greinargerð frá Herði þar sem fram kom að umræddur aðili sé ekki forráðamaður handknattsdeildar félagsins, heldur styrktaraðili, velunnari og sjálfboðaliði hjá því. Hann hafi ekki komið að því að stofna kröfuna í heimabankanum en félagið staðfesti að hún hafi verið stofnuð á vegum þess. Hún virðist hafa verið réttlætt með því að dómarinn hafi ollið félaginu skaða að því er fram kemur í úrskurði aganefndar.

Mat aganefndar er að stofnun kröfunnar í heimabanka dómarans hafi falið í sér óíþróttamannslega háttsemi á vegum Harðar og verið til þess fallin að skaða ímynd handknattleiksíþróttarinnar.

Niðurstaða aganefndarinnar var að sekta handknattleiksdeildar Harðar um 110 þúsund krónur.

Úrskurð aganefndar má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×