Í frétt ARD í Þýskalandi segir að 41 sé alvarlega særður eftir árásina, sem framin var af fimmtugum geðlækni frá Sádi Arabíu.
Tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir en svo virðist sem árásarmaðurinn, sem sagður er heita Taleb Al Abdulmohsen, hafi lýst sér sem vinstri sinnuðum manni en hann aðhylltist öfgahægriflokknum AfD og fylgdi hægri sinnuðum aðilum. Þá hefur hann haldið því fram á samfélagsmiðlum að Þjóðverjar séu að íslamvæða Evrópu.
Sjá einnig: Fimmtugur geðlæknir ók bílnum
Árásarmaðurinn er sagður hafa verið einn að verki.
Wall Street Journal segir Abdulmohsen hafa verið sjíta múslima en að hann hafi hafnað trúnni og þess vegna flúið frá Sádi-Arabíu. Hann hafi verið þekktur í Þýskalandi sem aðgerðarsinni gegn íslam og í senn barist fyrir réttindum kvenna.
Í aðdraganda árásarinnar birti hann færslur á X þar sem hann staðhæfði að hann hefði verið beittur ritskoðun og væri ofsóttur af yfirvöldum í Þýskalandi, sem hefðu framið glæpi gegn flóttafólki eins og honum. Þá sagði hann lögreglu Þýskalands framfylgja „sósíalískum lögum“ og að lögreglan hefði sent vopnaðan mann heim til hans til að stela af honum gögnum.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, er mættur til Magdeburg þar sem hann skoðaði vettvang árásarinnar í morgun með öðrum embættismönnum.
Þá segir Spiegel að umfangsmikil leit standi nú yfir á heimili hans, þar sem fjölmargir lögregluþjónar eru staddir.
Uppfært: Fjöldi látinna hefur verið hækkaður úr fjórum í fimm. Þá hefur upplýsingum um árásarmanninn verið bætt við.