Fótbolti

Mætir á leik í fyrsta sinn eftir að hjartað stoppaði

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson og Edoardo Bove komu báðir til Fiorentina í sumar.
Albert Guðmundsson og Edoardo Bove komu báðir til Fiorentina í sumar. Getty/Gabriele Maltinti

Albert Guðmundsson verður á ferðinni með Fiorentina gegn Udinese í kvöld, í síðasta heimaleik Fiorentina á þessu ári. Búast má við að vel verði klappað fyrir Edoardo Bove sem snýr aftur á Artemio Franchi leikvanginn eftir að hafa farið í hjartastopp.

Bove hneig niður í leik gegn Inter þann 1. desember og var óttast um líf hans. Leiknum var hætt og þessi 22 ára miðjumaður var fluttur í skyndi á sjúkrahús en var byrjaður að anda að nýju þegar hann kom upp í sjúkrabílinn.

Bjargráður hefur nú verið græddur í Bove en það er lækningatæki sem notað er til að meðhöndla lífshættulegar hjartsláttartruflanir, og getur þannig bjargað fólki ef það fer í hjartastopp.

Hann var svo útskrifaður af sjúkrahúsinu og fékk um þarsíðustu helgi að hitta liðsfélaga sína að nýju, og var að vonum vel fagnað.

Bove verður svo gestur á heimaleiknum gegn Udinese í kvöld þar sem Fiorentina gæti með sigri jafnað Lazio og mögulega Inter að stigum. Fiorentina er í 5. sæti deildarinnar með 31 stig eftir 15 leiki, en á tvo leiki til góða á efstu liðin Atalanta (40 stig) og Napoli (38 stig).

Þessi 22 ára leikmaður kom líkt og Albert til Fiorentina í sumar, að láni frá Roma með möguleika á kaupum. Hann hafði skorað eitt mark og átt fjórar stoðsendingar í fjórtán leikjum fyrir Fiorentina.

Reglur ítölsku A-deildarinnar í fótbolta banna Bove að spila með bjargráð. Hægt er að fjarlægja tækið en Bove gæti einnig farið þá leið að spila annars staðar, líkt og Daninn Christian Eriksen sem fór til Englands og leikur nú með Manchester United.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×