Neytendur

Kil­roy hafi veitt ferða­mönnum rangar upp­lýsingar

Atli Ísleifsson skrifar
Fram kemur að við meðferð málsins hafi Kilroy gert ýmsar fullnægjandi breytingar á skilmálum sínum sem Neytendastofa hafi tekið tillit til við ákvörðun um brot félagsins.
Fram kemur að við meðferð málsins hafi Kilroy gert ýmsar fullnægjandi breytingar á skilmálum sínum sem Neytendastofa hafi tekið tillit til við ákvörðun um brot félagsins. Vísir/Vilhelm

Neytendastofa hefur slegið á putta Kilroy Iceland þar sem athugasemdir voru gerðar við upplýsingagjöf fyrirtækisins til ferðamanna bæði fyrir samningsgerð og í samningnum sjálfum.

Á vef stofnunarinnar segir að Kilroy hafi veitt ferðamönnum rangar upplýsingar um rétt þeirra til að afpanta pakkaferð vegna verulegra breytinga og sömuleðis um ábyrgð Kilroy á breytingum á ferðinni.

„Taldi stofnunin að skipuleggjendum væri ekki heimilt að skilgreina upp á sitt einsdæmi hvað teljist til „óverulegra breytinga“ á pakkaferð eins og Kilroy geri. Meta þurfi í hverju tilviki fyrir sig hvað teljist vera óveruleg breyting á samningi um pakkaferð. Þá geti Kilroy ekki kveðið á um það að félagið beri ekki ábyrgð á breytingum sem flugfélag kunni að gera enda er ábyrgð skipuleggjenda pakkaferða á framkvæmd þeirra rík gagnvart ferðamönnum.

Kilroy hafði auk þess ekki veitt ferðamönnum staðlaðar upplýsingar sem ber að veita ferðamönnum fyrir samningsgerð. Taldi stofnunin að skipuleggjendum beri að birta stöðluðu upplýsingarnar eins og þær birtast í reglugerð.

Að lokum hafi félagið í samningum um pakkaferð ekki veitt neytendum upplýsingar um þann aðila sem fer með framkvæmd reglna um vernd gegn ógjaldfærni, sem er nú Ferðatryggingasjóður, eins og skylt er.

Upprunalegt erindi stofnunarinnar varðaði þó fleiri atriði sem betur hefðu mátt fyrir í upplýsingagjöf félagsins. Við meðferð málsins gerði félagið ýmsar fullnægjandi breytingar á skilmálum sínum sem Neytendastofa tók tillit til við ákvörðun um brot félagsins,“ segir á vef Neytendastofu.

Stofnunin hefur því bannað Kilroy að viðhafa umrædda viðskiptahætti, enda brot lögum eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, og hefur fyrirtækinu veitt fjögurra vikna frest til að bæta upplýsingagjöfina til ferðamanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×