Hér er Pétur G. Markan, bæjarstjóri að keyra inn Iðjumörkina til þeirra Bryndísar og Hafsteins en þeim fæddist dóttir á árinu, sem heitir Védís og fékk hún vísnabókina í gjöf frá Hveragerðisbæ eins og önnur börn, sem fæddust í bæjarfélaginu á árinu.
„Þetta snýst allt um tengsl, vera í góðum tengslum og fagna því að hér er ný kynslóð að verða til, sem að tekur svo við keflinu og þannig þroskast og eflast samfélög,” segir Pétur G. Markan bæjarstjóri, Hveragerðisbæjar.
Þetta er frábært framtak hjá ykkur.
Já, þetta er fallegur siður og þetta er svolítið í anda Hveragerðisbæjar finnst mér, það eru þessi tengsl og þessi mildu gildi öll, sem ég held að geri samfélög öll einhvernvegin framúrskarandi,” bætir Pétur við.

Mikil ánægja er hjá foreldrum með framtak bæjarfélagsins.
„Þetta er bara æðislegt og gaman af því að það sé verið að endurvekja svona hefð, skemmtilegar hefðir hérna í Hveragerði og lætur okkur nýja fólkinu í Hveragerði líða vel og vera velkomin,” segir Bryndís Gunnlaugsdóttir.
Bryndís, sem er úr Grindavík segist vera mjög ánægð í Hveragerði með sínum manni, Hafsteini Valdimarssyni og Védísi.
„Það sem mér finnst yndislegt hérna fyrir utan fólkið, sem er frábært það eru allur þessi gróður og þegar kemur svona jólasnjór yfir allt og komnar svona jólaseríur í trén og snjórinn sést í trén, það er svo jólalegt og fallegt en fyrst og fremst er það bara fólkið,” segir Bryndís.
