Í árlegu jólaávarpi sínu í dag sagði Frank-Walter Steinmeier forseti Þýskalands að atburðirnir í Madgeburg síðustu daga hafi varpað dökkum skugga á hátíðahöld Þjóðverja í ár. Fimm létu lífið og yfir tvö hundruð meiddust þegar sendibíl var ekið inn á jólamarkað í borginni þann 20. desember.
Hann biðlaði til fólks að standa saman í stað þess að tvístrast vegna öfgakenndra skoðana. Árásarmaðurinn, fimmtugur læknir frá Sádi-Arabíu, hefur verið ákærður fyrir verknaðinn en tilefni árásarinnar liggur enn ekki fyrir.
Sjá einnig: Sádar sagðir hafa sent fjórar viðvaranir
Þýski öfgahægriflokkurinn AfD stóð fyrir minningarviðburði vegna árásarinnar í gær. Í frétt BBC segir að Alice Weidel einn leiðtogi flokksins hafi kallað eftir breytingum „til þess að við getum loksins búið við öryggi á ný“ og viðstaddir svarað með því að kalla „brottvísum þeim“.
Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum er ýmislegt ódæmigert við árásarmanninn. Aðrar árásir sem gerðar hafa verið á jólamarkaði í Þýskalandi hafa verið raktar til hryðjuverkasamtaka. Í umfjöllun BBC segir að árásarmaðurinn hafi gagnrýnt Islam og lýst yfir stuðningi við AfD og innflytjendastefnu hans á samfélagsmiðlum.
AfD hefur ekki tjáð sig um samfélagsmiðlafærslur árásarmannsins tengdar flokknum. Þrátt fyrir neikvæða orðræðu hans gagnvart bæði innflytjendum og Íslam hefur Martin Reichardt leiðtogi flokksins í Saxlandi-Anhalt sagt á X að „árásin í Madgeburg sýni að verið er að draga Þýskaland í pólitískt og trúarlegt ofstæki sem á uppruna sinn í annan heim.“
Fylgi flokksins mælist hátt í skoðanakönnunum en þingkosningar fara fram í lok febrúar. Vegna árásarinnar og orðræðu flokksins vegna hennar gagnvart innflytjendum er ljóst að innflytjendamál verða í brennidepli í kosningabaráttunni.