Körfubolti

Sakar NBA-deildina um að vera á móti Hou­ston Rockets

Smári Jökull Jónsson skrifar
Amen Thompson kominn í gólfið eftir átökin við Tyler Herro og Terry Rozier er byrjaður að skipta sér af.
Amen Thompson kominn í gólfið eftir átökin við Tyler Herro og Terry Rozier er byrjaður að skipta sér af. Vísir/Getty

Amen Thompson leikmaður Houston Rockets í NBA-deildinni hefur verið dæmdur í tveggja leikja bann vegna áfloga við Tyler Herro í leik Rockets og Miami Heat um helgina. Fyrrum leikmaður Houston Rockets sakar forráðamenn NBA-deildarinnar um óheiðarleika.

Miami Heat vann 104-100 sigur gegn Houston Rockets í NBA-deildinni um helgina en eftir leik voru þó flestir að tala um áflog þeirra Amen Thompson og Tyler Herro.

Þeir Thompson og Herro byrjuðu að kítast þegar boltinn var ekki í leik og endaði það með því að Thompson henti Herro í jörðina áður en flestallir leikmenn liðanna hópuðust að til að stöðva áflogin.

NBA-deildin hefur nú dæmt Thompson í tveggja leikja bann en Herro fékk 25.000 dollara sekt.

Fyrrum leikmaður Houston Rockets, Vernon Maxvell, hefur nú tjáð sig um atvikið og sparar ekki stóru orðin frekar en fyrri daginn. Sakar hann forráðamenn NBA-deildarinnar um að vera á móti Houston Rockets og tekst auk þess að draga rapparann Machine Gun Kelly inn í umræðuna.

„Tveggja leikja bann á Amen, 25 þúsund dollara sekt og ekkert bann á hvatamanninn MGK. NBA-deildin hefur aldrei fílað Houston og þeir hljóta að vera hrifnir af horuðum hvítum strákum sem geta ekki rappað,“ skrifaði Maxvell en þetta var ekki í eina skiptið sem hann líkti Tyler Herro við Machine Gun Kelly.

Þegar atvikið átti sér stað í leiknum skrifaði hann að „einhver þyrfti að segja Machine Gun Kelly að láta Amen Thompson í friði.“

Amen Thompson er síður en svo fyrsti leikmaður Houston Rockets sem lætur hnefana tala á vellinum. Rockets leikmaðurinn fyrrverandi Hakeem Olajuwon gerði það í nokkur skipti á sínum frábæra ferli og stjórnandi hlaðvarpsins The Bradeaux & Will Show, sem fjallar um lið Rockets, sagði Thompson vera að gera það sem hann þyrfti til að verða gosögn hjá félaginu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×