Handbolti

„Við eigum okkur allir drauma“

Sindri Sverrisson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson er á leið á sitt annað stórmót sem þjálfari Íslands en fór einnig á fjölmörg mót sem leikmaður.
Snorri Steinn Guðjónsson er á leið á sitt annað stórmót sem þjálfari Íslands en fór einnig á fjölmörg mót sem leikmaður. Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, fór yfir stöðuna nú þegar lokaundirbúningur er hafinn af fullum krafti fyrir HM. Fyrsti leikur Íslands er við Grænhöfðaeyjar 16. janúar í Zagreb.

Ísland er í riðli með Grænhöfðaeyjum, Kúbu og Slóveníu og má fyrir fram búast við hörðum slag við Slóvena um efsta sæti riðilsins. Þrjú efstu liðin komast í milliriðil með þremur liðum úr H-riðli (Króatía, Egyptaland, Argentína, Barein), og tvö efstu liðin úr milliriðlinum komast svo áfram í 8-liða úrslit mótsins.

Snorri ræddi við Vísi í Víkinni í gær, á annarri æfingu íslenska liðsins eftir að það kom saman, og var spurður hvort ekki væru teikn á lofti um að hægt væri að ná langt á mótinu:

„Þurfum að vinna riðilinn“

„Er það ekki bara alltaf? Við eigum okkur allir einhverja drauma og þeir fara ekkert. En til þess að þeir verði að veruleika þurfa hlutirnir að tikka í rétta átt fyrir þig. Við þurfum að vinna riðilinn og ætlum að byrja á því,“ segir Snorri og vill greinilega bíða með allar vangaveltur um hvað þurfi að gerast svo Ísland komist í átta liða úrslit:

„Ég held að það sé hollt og gott fyrir okkur sem lið að vera ekki að fara fram úr okkur – reikna einhverja hluti og skoða hvað gæti gerst. Ef leikurinn 16. janúar er ekki í lagi eru meiri líkur á að leikurinn 18. janúar verði ekki í lagi og þannig koll af kolli. Við þurfum bara að taka eitt skref í einu og sjá til þess að við séum í góðu standi og líði vel þegar kemur í þessa stóru leiki,“ segir Snorri.

Klippa: Snorri Steinn á æfingu fyrir HM

Stórt skarð er fyrir skildi hjá íslenska liðinu vegna fjarveru Ómars Inga Magnússonar, sem er meiddur. Þeir átján leikmenn sem Snorri valdi í HM-hópinn ættu hins vegar að vera klárir í slaginn á HM, þó að Elvar Örn Jónsson og Aron Pálmarsson hafi ekki getað beitt sér að fullu á fyrstu æfingunum.

„Ég er þokkalega sáttur með stöðuna. Það er eitthvað um hnjask hér og þar, og á eflaust eftir að verða meira í löngum janúarmánuði. Það er partur af þessu. Eina breytan í þessu er að Ómar er ekki með en við vissum það fyrir fram og erum búnir að undirbúa það vel. Að því leytinu til var þetta bara þægilegra, þegar þetta er bara klippt og skorið og menn ekki með,“ segir Snorri.

Hann vonast að sjálfsögðu til að ná sem mestu út úr sínum mönnum á æfingum fram að HM, en liðið æfir hér fram á miðvikudag og heldur svo til Svíþjóðar í tvo vináttulandsleiki við heimamenn, 9. og 11. janúar. Því næst fer liðið til Zagreb og þá þarf allt að vera orðið klárt:

„Stórmót snýst svakalega mikið um „mojo“. Að finna það og láta það tikka í rétta átt. Við höfum farið vel yfir það að hver einasta æfing og hver einasti æfingaleikur skiptir fáránlega miklu máli. Allt sem maður gerir illa situr meira í manni en það sem maður gerir vel. Við þurfum að „fighta“ það og láta hlutina vinna með okkur,“ segir Snorri en viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Árásin í Magdeburg: „Snertir djúpt hvað þetta var nálægt manni“

Hryðju­verkin á jóla­markað í Mag­deburg, þar sem að fimm manns létu lífið og um tvö hundruð særðust, snertu ís­lenska lands­liðs­manninn Gísla Þor­geir Kristjáns­son sem leikur með hand­bolta­liði bæjarins djúpt. Gísli Þor­geir er nú mættur til móts við ís­lenska lands­liðið sem undir­býr sig af krafti fyrir komandi heims­meistaramót.

„Svakalega leiðinlegt fyrir bæði hann og okkur“

„Við dílum við þetta,“ segir Gísli Þorgeir Kristjánsson, liðsfélagi Ómars Inga Magnússonar í landsliðinu og hjá Magdeburg. Gísli er á leið á HM en nú án þess að hafa Ómar við hlið sér því sá síðarnefndi glímir við ökklameiðsli.

„Eiginlega bara þið sem hafið pumpað þetta upp“

„Það er alltaf allt jákvætt svona í byrjun og svo þurfum við að halda því þannig,“ segir Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, ánægður með byrjunina á undirbúningi fyrir HM í handbolta. Hann hefur einnig notið þess í botn að snúa á ný í atvinnumennsku í vetur, með Veszprém, og fékk blíðar viðtökur hjá sínu gamla félagi þrátt fyrir viðskilnaðinn árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×