Körfubolti

Botna ekkert í Aþenu: „Margt við þetta lið Hörður minn sem ég átta mig ekki á“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brynjar Karl Sigurðsson er þjálfari Aþenu.
Brynjar Karl Sigurðsson er þjálfari Aþenu. vísir/anton

Sérfræðingar Bónus Körfuboltakvölds kvenna botna ekkert í liði Aþenu sem situr í næstneðsta sæti Bónus deildarinnar. Þeir velta fyrir sér tilgangi liðsins.

Aþena tapaði fyrir Hamri/Þór í botnslag á laugardaginn, 100-83. Þetta var fjórði tapleikur Aþenu í röð.

Í Bónus Körfuboltakvöldi furðuðu Hörður Unnsteinsson, Ólöf Helga Pálsdóttir og Hallveig Jónsdóttir sig á samsetningu leikmannahóps Aþenu og hvernig mínútunum væri dreift.

„Aþena er ekki lið sem er vant að fá á sig hundrað stig í leik. Það eru nýir leikmenn og vörnin hjá liðinu var ótrúlega léleg á löngum köflum og stemmningin kannski eitthvað skrítin. Svo er mínútudreifingin þarna ótrúlega skrítin. Þú þarft að gera ótrúlega lítið til að vera bekkjaður í langan tíma,“ sagði Hallveig í þættinum á sunnudaginn.

„Þetta eru sex Íslendingar og sex útlendingar. Þær enda í 54 mínútum af tvö hundruð og erlendu leikmennirnir í 146 mínútum. Þetta er svolítið skrítið. Við verjum Tindastól að vera með 4-5 útlendinga. Þær lífsnauðsynlega þurfa þess. Aþena þarf ekki að vera með sex eða sjö útlendinga ef Jade [Edwards] er ekki farin heim. Þær þurfa þess ekki. Af hverju eru þær að þessu?“ spurði Hörður.

„Það er margt við þetta lið Hörður minn sem ég átta mig ekki á,“ svaraði Hallveig.

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld kvenna - Umræða um Aþenu

Ólöf og Hörður veltu fyrir sér stefnu Aþenu, hver tilgangurinn með tilvist liðsins væri.

„Til hvers er liðið? Á þetta ekki að vera til að spila og valdefla þessar ungu stelpur sem eru búnar að vera þarna í mörg ár og rífa þetta lið upp. Er þetta eitthvað troll? Ég í alvörunni skil þetta ekki,“ sagði Hörður.

Umræðuna um Aþenu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×