Handbolti

Al­dís Ásta frá­bær í stór­sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Akureyringurinn Aldís Ásta Heimisdóttir var mjög góð í leiknum í dag, skoraði mikið og spilaði upp liðsfélaga sína.
Akureyringurinn Aldís Ásta Heimisdóttir var mjög góð í leiknum í dag, skoraði mikið og spilaði upp liðsfélaga sína. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska handboltakonan Aldís Ásta Heimisdóttir átti mjög góðan leik í sænsku úrvalsdeildinni í dag þegar lið hennar var stórsigur og hélt sigurgöngu sinni áfram.

Skara vann þá tólf marka sigur á Ystad, 36-24, en þetta var fjórði deildarsigur liðsins í röð.

Aldís Ásta var með fimm mörk og átta stoðsendingar í leiknum og var einn besti maður síns liðs. Hún nýtti öll skotin sín í leiknum og ekkert af mörkum hennar komu úr vítum.

Skara var sjö mörkum yfir í hálfleik, 19-12, en Aldís Ásta var með þrjú mörk úr þremur skotum og fimm stoðsendingar í fyrri hálfleiknum.

Hún kom þar með beinum hætti að átta mörkum í hálfleiknum.

Skara hefur unnið fjóra af sex sigrum sínum á tímabilinu í þessum fjórum síðustu leikjum og þetta góða gengi er að fara langt með að skila liðinu einu af þeim sætum sem gefa þáttökurétt í úrslitakepninni.

Liðið vann aðeins tvo af fyrstu átta leikjum sínum en hefur náð að snúa við blaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×