Þetta fullyrðir handboltasérfræðingurinn Logi Geirsson á Twitter, en á föstudaginn var sagt frá því að Hafsteinn fengi ekki sæti í 16 manna hópi Grænhöfðaeyja og væri því á heimleið frá Zagreb.
Uppfært: Handknattleikssamband Grænhöfðaeyja hefur nú staðfest að Hafsteinn Óli hafi verið kallaður inn í stað Anderson Rocha vegna meiðsla.
Hafsteinn, sem er leikmaður Gróttu í Olís-deildinni, var í fyrsta sinn valinn í landslið Grænhöfðaeyja í nóvember, fyrir leiki við Kúveit, Barein og Túnis. Hann hafði þá verið í sambandi við forráðamenn handknattleikssambands Grænhöfðaeyja í nokkurn tíma:
„Fyrir síðustu jól [fyrir rúmu ári] heyrðu þeir í pabba mínum. Við töluðum svo saman í nokkra mánuði og síðan í sumar fór ég til Grænhöfðaeyja og fékk ríkisborgararéttinn þar. Ég var þar í tíu daga að græja pappíra og allt það. Eftir það kom ég heim og heyrði ég í þjálfaranum. Síðan var maður mættur þarna á mót í Kúveit í byrjun nóvember. Það gekk vel og maður fékk hellings spiltíma, þrjátíu mínútur í leik,“ sagði Hafsteinn aðspurður um hvernig það hefði atvikast að hann var valinn í landslið Grænhöfðaeyja.
Hafsteinn var svo valinn í 18 manna hóp Grænhöfðaeyja fyrir HM og fór með liðinu til Zagreb þar sem liðið spilar sína leiki líkt og íslenska landsliðið. Hann fékk hins vegar óvænt þær fréttir fyrir helgi að hann og annar leikmaður væru á heimleið, en nú hefur verið kallað í hann að nýju vegna meiðsla.
HM hefst í dag en keppni í riðli Íslands hefst á fimmtudaginn þegar liðið mætir Grænhöfðaeyjum klukkan 19:30.