Körfubolti

Eltihrellir Caitlin Clark með upp­steyt í dómsal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Caitlin Clark var valin nýliði ársins í WNBA deildinni á síðasta tímabili. Lið hennar, Indiana Fever, komst í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í átta ár.
Caitlin Clark var valin nýliði ársins í WNBA deildinni á síðasta tímabili. Lið hennar, Indiana Fever, komst í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í átta ár. getty/Joe Buglewicz

Maðurinn sem var handtekinn fyrir að ofsækja körfuboltastjörnuna Caitlin Clark var með uppsteyt þegar mál hans var tekið fyrir í dómsal.

Michael Lewis, 55 ára Bandaríkjamaður, var handtekinn í Indianapolis á mánudaginn fyrir að sitja um Clark og senda henni ógnandi og kynferðisleg skilaboð.

Mál Lewis var tekið fyrir í gær. Hann var ávíttur fyrir að vera með læti í dómsal. Hann greip ítrekað fram í, sagði að rangur maður hefði verið handtekinn og hann þyrfti að fá lyfin sín er hann var spurður hvort hann glímdi við andleg vandamál.

Lewis var úthlutað lögmanni sem sagði hann neita sakargiftum. Lewis situr í gæsluvarðhaldi en gæti verið látinn laus gegn fimmtíu þúsund dala tryggingu. Hann segist ekki ætla að gera það.

Lögreglan ræddi fyrst við Lewis í síðustu viku þegar hann sendi Clark skilaboð. Í þeim sagðist hann meðal annars hafa keyrt þrisvar sinnum að húsi hennar. Clark sagði lögreglunni að hún hafi óttast um öryggi sitt og hafi brugðið á það ráð að dulbúast þegar hún fór út úr húsi.

Lewis lét ekki segjast og hélt áfram að senda Clark skilaboð. Í fyrradag var hann svo handtekinn á hóteli í Indianapolis þar sem hann dvaldi. Þar sagðist hann gera sér grein fyrir að hann ætti ekki í sambandi við Clark og um ímyndun og grín væri að ræða og þvertók fyrir að skilaboðin væru ógnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×