Holland vann sautján marka sigur á Gíneu, 40-23, og Egyptaland vann fjórtán marka sigur á Argentínu, 39-25.
Portúgalar lentu í aðeins meiri vandræðum með Bandaríkjamenn en voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 15-10, og unnu að lokum með níu mörkum, 30-21.
Pedro Portela og Martim Costa voru markahæstir hjá Portúgal með sjö mörk hvor.
Hollendingar skoruðu 21 mark í fyrri hálfleik á móti Gíneu og voru komnir með þrettán marka forskot í hálfleik, 21-8. Þeir unnu seinni hálfleikinn 19-15.
Rutger Ten Velde var markahæstur hjá þeim með níu mörk en Ivar Stavast skoraði fimm mörk.
Egyptar voru aðeins lengur að hrista af sér Argentínumenn en skoruðu líka 21 mark í fyrri hálfleik sem skilaði þeim tíu marka forskoti í hálfleik, 21-11. Argentínumenn löguðu aðeins stöðuna um tíma í seinni hálfleik en þetta endaði í fjórtán marka mun.
Mohammad Sanad var markahæstur hjá Egyptum með sex mörk en Ali Zein skoraði fimm mörk.
Alls fengu þrír Argentínumenn rauða spjaldið í leiknum þar af einn þeirra fyrir þrjá brottrekstra.
Mesta spennan var í leik Tékka og Svisslendinga. Sviss var einu marki yfir í hálfleik, 8-7. Liðin gerðu á endanum 17-17 jafntefli. Lenny Rubin tryggði Svisslendingum jafntefli með sínu áttunda marki í leiknum. Lukas Morkovsky var markahæstur hjá Tékkum með fimm mörk.