Handbolti

Stærsta blað Slóveníu: Sárs­auka­full kennslu­stund

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson keyrði ítrekað á risann Blaz Blagotinsek og sá stóri var tvisvar rekinn út af í tvær mínútur fyrir brot á íslenska leikstjórnandanum.
Gísli Þorgeir Kristjánsson keyrði ítrekað á risann Blaz Blagotinsek og sá stóri var tvisvar rekinn út af í tvær mínútur fyrir brot á íslenska leikstjórnandanum. Vísir/Vilhelm

Stærsta blað Slóveníu segir að slóvensku leikmennirnir hafi fallið á fyrsta stóra prófinu sínu á heimsmeistaramótinu í handbolta.

Slóvenía tapaði með fimm marka mun á móti Íslandi í gærkvöldi í úrslitaleik um sigurinn í riðlinum og tvö aukastig í milliriðlinum. Íslenska liðið fékk aðeins tíu mörk á sig á fyrstu 45 mínútum leiksins.

Blaðamaður stórblaðsins Delo hrósar íslenska landsliðinu. „Sársaukafull kennslustund fyrir slóvenska landsliðið og tap. Íslenska liðið var miklu betra,“ skrifaði Nejc Grilc hjá Delo.

„Slóvenska landsliðið hafði ekki ástæðu til að fagna eftir fyrsta alvöru prófið sitt á 23. heimsmeistaramótinu í handbolta. Eftir sannfærandi sigra á móti Kúbu og Grænhöfðaeyjum voru þeir óþekkjanlegir á móti Íslandi. Liðið tapaði á endanum stórt og fer því bara með tvö stig í milliriðilinn,“ skrifaði Grilc.

„Þrátt fyrir að vera sigurstranglegra liðið á pappírnum þá sýndu Slóvenarnir það ekki að þessu sinni. Eins og í undirbúningsleikjunum fyrir mótið þá voru fullt af vandamálum í sókninni og meðal annars átta tapaðir boltar í fyrri hálfleiknum einum,“ skrifaði Grilc.

„Íslenski markvörðurinn Viktor Hallgrímsson hitnaði fljótt og varði hvert skotið á fætur öðru. Slóvenarnir hjálpuðu honum líka með ósannfræandi skotum,“ skrifaði Grilc.

„Nú verður erfitt fyrir slóvenska liðið að komst í átta liða úrslitin en það eru Ísland og Egyptaland sem byrja í bestu stöðunni í milliriðlinum,“ skrifaði Grilc.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×