Handbolti

Ein­kunnir Strákanna okkar á móti Króatíu: Hér varð hrun

Íþróttadeild Vísis skrifar
Flestir leikmenn íslenska liðsins léku undir pari í kvöld.
Flestir leikmenn íslenska liðsins léku undir pari í kvöld. vísir/vilhelm

Eftir að hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína á HM á íslenska karlalandsliðið í handbolta allt í einu litla möguleika á að komast í átta liða úrslit eftir stórt tap fyrir Króatíu, 32-26, í Arena Zagreb í kvöld.

Strákarnir hans Dags Sigurðssonar mættu gríðarlega einbeittir til leiks og drógu strax tennurnar úr okkar mönnum.

Ekki stóð steinn yfir steini í varnarleik Íslands í fyrri hálfleik og markverðirnir vörðu aðeins samtals tvö skot í honum. Sóknarleikurinn var líka afleitur gegn sterkri 5-1 vörn Króatíu. Þá varði Dominik Kuzmanovic frábærlega í króatíska markinu.

Heimamenn voru átta mörkum yfir í hálfleik, 20-12, og ljóst að brekkan yrði brött fyrir okkar menn í seinni hálfleik. Þeir máttu aðeins tapa með þremur mörkum eða minna til að sigur gegn Argentínumönnum myndi örugglega duga til þess að komast í átta liða úrslit.

Viktor Gísli Hallgrímsson kom aftur í markið í seinni hálfleik og varði þá frábærlega, alls þrettán skot, en allt annað var í sömu molum og í fyrri hálfleik.

Íslendingar ógnuðu aldrei forskoti Króata sem unnu á endanum sex marka sigur, 32-26. Ísland þarf núna að vinna Argentínu í lokaumferð milliriðils 4 og treysta á að Slóvenía taki stig af Króatíu, eða það sem langsóttara er, að Grænhöfðaeyjar taki stig af Egyptalandi.

Líkt og áður þá gefur íþróttadeild Vísis og Stöðvar tvö leikmönnum og þjálfaranum einkunnir fyrir frammistöðu sína.

Leikmenn og þjálfarar fá einkunn á bilinu 1-6 með umsögn, en neðst í fréttinni má sjá hvað hver einkunn þýðir.

Einkunnir Íslands gegn Króatíu:

- Byrjunarlið Íslands í leiknum -

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður - 3 (13 varin skot - 39:01 mín.) Eftir að hafa verið frábær á mótinu varði Viktor ekki skot í fyrri hálfleik. Fékk ekkert við ráðið, sama hvort það voru langskot eða dauðafæri. Kom inn á í hálfleik og var algjörlega framúrskarandi í seinni hálfleik. Varði þá þrettán af þeim 25 skotum sem hann fékk á sig, eða 52 prósent. En það dugði skammt þar sem ekkert annað í leik Íslands lagaðist í seinni hálfleik.

Orri Freyr Þorkelsson, vinstri hornamaður - 3 (4 mörk - 60:00 mín.) Sýndi gríðarlegt öryggi framan af leik og skoraði úr fyrstu þremur skotunum sínum. Eftir það hallaði undan fæti hjá Orra sem skoraði aðeins eitt mark úr næstu fimm skotum. Slakasti leikur hans á mótinu.

Elvar Örn Jónsson, vinstri skytta - 2 (1 mark - 36:47 mín.) Hefur verið algjörlega magnaður í vörninni á HM en náði sér engan veginn á strik í leiknum í kvöld. Réði ekkert við króatísku sóknarmennina sem léku við hvurn sinn fingur. Gerði ekkert í sókninni, ekki frekar en í síðustu leikjum.

Janus Daði Smárason, leikstjórnandi - 2 (3 mörk - 24:14 mín.) Skoraði fyrsta mark leiksins en var glórulaus eftir það. Fór með þrjár sóknir í röð og Króatar gengu á lagið. Varnarlaus á hinum enda vallarins. Gerir enn alltof mörg mistök. Skoraði tvö mörk undir lokin og lagaði tölfræðina sína aðeins.

Viggó Kristjánsson, hægri skytta - 3 (5/2 mörk - 45:29 mín.) Var markahæstur í íslenska liðinu en átti ekki sinn besta leik. Gerði of mörg mistök, var ragur að fara inn í færin sín eftir því sem leið á leikinn og virtist vera kominn af fótum fram. Enda þarf hann að spila nánast hverja einustu mínútu. Viggó endaði með fimm mörk, fjórar stoðsendingar og tvö fiskuð víti en hefur oftast spilað betur en í kvöld.

Óðinn Þór Ríkharðsson, hægri hornamaður - 1 (0 mörk - 29:53 mín.) Klikkaði á eina skotinu sem hann tók. Hefur átt slakt mót.

Ýmir Örn Gíslason, línumaður - 2 (2 mörk - 39:23 mín.) Hefur verið frábær í vörninni á mótinu en í kvöld var Ýmir í miklu basli. Fékk ekkert við ráðið í varnarleiknum. Skoraði tvö mörk en króatísku varnarmennirnir þurftu ekki að hafa miklar áhyggjur af honum í sókninni.

- Menn sem komu inn af bekknum í leiknum -

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður - 1 (2 varin skot - 17:33 mín.) Kom inn á eftir um tíu mínútur. Varði tvö skot en var alltof lengi inn á. Virkaði illa áttaður og missti nokkur skot inn.

Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikstjórnandi - 1 (0 mörk - 7:12 mín.) Hvernig getur leikmaður sem hefur verið valinn bestur í þýsku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu litið út eins og algjör meðaljón með íslenska landsliðinu? Komst ekkert áleiðis í endalausu hnoði og króatísku varnarmennirnir negldu Gísla hvað eftir annað. Verður að sýna meira í landsliðsbúningnum.

Aron Pálmarsson, vinstri skytta - 3 (4 mörk - 35:02 mín.) Var sá eini af útispilurunum sem komst eitthvað áleiðis í fyrri hálfleik. Gerði samt fullt af mistökum í sókninni og var óvenju slakur í vörninni. Sýndi ekki sömu frammistöðu og í síðustu þremur leikjum en reyndi samt eins og hann gat. Tapaði boltanum fjórum sinnum.

Elliði Snær Viðarsson, línumaður - 2 (1 mark - 35:07 mín.) Hjálpaði íslenska liðinu ekkert í leiknum. Slakur í vörn og átti ekkert í Króatana inni á línunni.

Haukur Þrastarson, vinstri skytta - 3 (2 mörk - 5:58 mín.) Enn og aftur notaður afar sparlega. Virkaði hálf smeykur er hann kom inn á í fyrri hálfleik en skilaði samt tveimur mörkum og stoðsendingu á þeim sex mínútum sem hann spilaði í leiknum. Það hlýtur að vera hægt að fá meira út úr Hauki en hefur verið gert á þessu móti.

Teitur Örn Einarsson, hægri skytta - (0 mörk - 2:55 mín.) Þjálfarinn virðist hafa minni en enga trú á Teiti sem kom bara inn á þegar Viggó fékk brottvísun. Til hvers í ósköpunum var verið að taka hann með á mótið?

Sigvaldi Guðjónsson, hægra horn - 2 (3 mörk - 28:32 mín.) Spilaði seinni hálfleikinn. Skoraði þrjú mörk en klikkaði á þremur skotum. Hefur, líkt og Óðinn, ekki spilað vel á mótinu.

Einar Þorsteinn Ólafsson, varnarmaður - 3 (0 mörk - 12:54 mín.) Spilaði vörnina síðasta stundarfjórðunginn og átti sinn þátt í að hún lagaðist. Króatar voru vissulega byrjaðir að spila lengri sóknir og tefja tímann en Einar komst ágætlega frá sínu. Hefði mátt koma fyrr inn á.

Þorsteinn Leó Gunnarsson, vinstri skytta - (spilaði ekkert)

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari - 1 Var skákaður og mátaður af refinum Degi. Spennustig íslenska liðsins virkaði ekki rétt stillt og það virtist ekki eiga nein svör við 5-1 vörn Króatíu. Snorri var alltof lengi að taka leikhlé í fyrri hálfleik og kom ekki með neinar lausnir í hálfleik þótt staðan hafi vissulega verið orðin erfið. Fær lítið út úr Gísla og hélt Björgvini of lengi inn á í fyrri hálfleik. Íslenska liðið hefur spilað vel á HM en í kvöld magalenti það, og það með látum.  

Útskýring á einkunnum

  • 6 - Heimsklassa frammistaða
  • 5 - Frábær frammistaða
  • 4 - Góð frammistaða
  • 3 - Sæmileg frammistaða - skilaði sínu
  • 2 - Ekki nógu góð frammistaða
  • 1 - Slakur leikur

Tengdar fréttir

„Verðum bara að vera bjartsýnir og hafa trú“

„Þetta er ótrúlega svekkjandi,“ sagði Elliði Snær Viðarsson eftir tapið gegn Króatíu á HM í handbolta í kvöld. Hann heldur þó í bjartsýnina og von um sæti í 8-liða úrslitum.

„Ég held að þeim hafi bara liðið vel allan tímann“

„Erfiður dagur. Við vorum bara ekki nægilega góðir,“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson eftir sex marka tap gegn Króatíu. Hann segir liðið ekki hafa náð sama takti varnarlega og í síðustu tveimur leikjum, tapið muni síðan líklega kosta sæti í átta liða úrslitum.

„Fyrri hálfleikurinn var alveg frábær“

„Við fengum rosa góða byrjun á leiknum, vörnin var alveg hrikalega sterk og markvarslan góð. Fengum ekkert hraðaupphlaup út úr því en náðum að komast í sóknirnar og klára þær ágætlega,“ sagði landsliðsþjálfari Króatíu, Dagur Sigurðsson, eftir sigurinn gegn Íslandi.

„Gerðum nákvæmlega það sem við ætluðum ekki að gera“

„Við vorum með allt klárt og gerðum nákvæmlega það sem við ætluðum ekki að gera,“ sagði Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, hundóánægður eftir skelfilega útreið gegn Króatíu á HM í Zagreb í kvöld.

Tölfræðin á móti Króatíu: Níu prósent markvarsla í fyrri hálfleik

Íslenska karlalandsliðið í handbolta fékk slæman skell á móti Króatíu í öðrum leik sínum í milliriðli á heimsmeistaramótinu í handbolta. Liðið mátti ekki tapa með fjórum mörkum eða meira en skellurinn var stærri. Sex marka tap kippti íslenska liðinu harkalega niður á jörðina og hálfa leið út úr mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×