Skoðun

„Mik­il mála­miðlun af okk­ar hálfu“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Forystumenn og aðrir frambjóðendur Viðreisnar hafa slegið sér upp á því að þeir treysti þjóðinni til þess að taka ákvörðun um það hvort sækjast eigi eftir inngöngu í Evrópusambandið á nýjan leik eða ekki. Hafa þeir þannig talað á þá leið að það væri þeim mikið hjartans mál að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um málið. Það væri þjóðin sem ætti að taka þá ákvörðun.

Fyrir vikið vakti athygli þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, lýsti því yfir í Spursmálum á mbl.is. rétt fyrir þingkosningarnar að ákall flokksins eftir þjóðaratkvæði væri aðeins málamiðlun af hálfu hans. „Það er ekki farið beint í aðild­ar­viðræður. Við för­um alltaf í þjóðar­at­kvæðagreiðslu á und­an. Og það er mik­il mála­miðlun af okk­ar hálfu.“

Með öðrum orðum fólst í orðum Þorgerðar Katrínar að Viðreisn hefði í raun ekki viljað þjóðaratkvæðagreiðslu í þessum efnum. Sé eitthvað markmið er vitanlega engin þörf á málamiðlunum í þeim efnum. Helzt vildi flokkurinn þannig ljóslega að ekki þyrfti að halda þjóðaratkvæði og að farið yrði beint í það að hefja umsóknarferli að Evrópusambandinu.

Hugsunin með því að leggja áherzlu á þjóðaratkvæði hefur annars greinilega verið sú að nýta sér þá jákvæðu skírskotun sem slíkar atkvæðagreiðslur allajafna hafa í hugum landsmanna til þess að freista þess að koma málstað Evrópusambandssinna upp úr þeim hjólförum sem hann hefur verið um langt árabil. Með öðrum orðum felst í því ákveðin örvænting.

Framganga Viðreisnar í þessum efnum til viðbótar við annað, eins og þá staðreynd að forystumenn og aðrir frambjóðendur flokksins forðuðust að tala um Evrópusambandið í kosningabaráttunni, er ekki beinlínis til marks um málstað sem stendur styrkum fótum heldur þvert á móti veikan málstað og að helztu talsmenn hans séu vel meðvitaðir um það.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál) og heldur úti vefnum Stjórnmálin.is.




Skoðun

Sjá meira


×