Viðskipti innlent

Gísli Rafn til Rauða krossins

Lovísa Arnardóttir skrifar
Gísli Rafn starfaði hjá hjálparsamtökum um árabil áður en hann tók sæti á þingi.
Gísli Rafn starfaði hjá hjálparsamtökum um árabil áður en hann tók sæti á þingi. Rauð kross Íslands

Rauði krossinn á Íslandi hefur ráðið Gísla Rafn Ólafsson sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins og hefur hann störf í þessari viku. Gísli Rafn var þingmaður fyrir Pírata en náði ekki inn á þing, eins og aðrir þingmenn Pírata, í síðustu alþingiskosningum. Hann sat fyrir hönd Pírata í utanríkismála- og þróunarsamvinnunefnd á meðan hann sat á þingi frá 2021 til 2024. 

„Rauði krossinn á Íslandi gegnir lykilhlutverki í að styðja við þá sem þurfa mest á aðstoð að halda, bæði innanlands og utan. Ég hlakka til að vinna með þeim öfluga hópi starfsmanna og sjálfboðaliða sem starfa hjá Rauða krossinum við að efla starfsemi félagsins og tryggja að við verðum áfram til staðar fyrir þá sem þurfa á okkur að halda,“ segir Gísli Rafn um ráðningu sína.

Í tilkynningu frá Rauða krossinum kemur fram að Gísli Rafn gangi til liðs við þau með tæplega þriggja áratuga reynslu af þróunar- og hjálparstörfum á innlendum og erlendum vettvangi. Gísli Rafn er með meistarapróf í þróunarfræði frá Háskóla Íslands.

Þar kemur einnig fram að Gísli Rafn hafi áður verið yfirmaður neyðarmála hjá NetHope, regnhlífarsamtökum 60 stærstu hjálparsamtaka í heimi þar sem hann kom að viðbragðsstjórnun vegna náttúruhamfaravíða um heim. Gísli Rafn var einnig hluti af alþjóðlegu útkallsteymi sérfræðinga hjá Sameinuðu þjóðunum, UNDAC, sem kallað er út þegar stórar hamfarir dynja yfir og nauðsynlegt er að virkja viðbragð alþjóðasamfélagsins. Auk þess var Gísli Rafn stjórnandi Íslensku Alþjóðabjörgunarsveitarinnar þegar hún fór til Haítí árið 2010 í kjölfar mannskæðs jarðskjálfta þar í landi.

„Með ráðningu Gísla Rafns hefur Rauði krossinn fengið reynslumikinn og framsækinn leiðtoga sem mun vinna að því að styrkja og efla starfsemi félagsins, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir formaður Rauða krossins á Íslandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×