Körfubolti

Landsliðsfólk og VÆB-menn prófuðu hjólastólakörfubolta

Stefán Árni Pálsson skrifar
Það var frábær stemning í Kringlunni þegar hjólastólakörfubolti var kynntur.
Það var frábær stemning í Kringlunni þegar hjólastólakörfubolti var kynntur.

Hjólastólakörfubolti var kynntur fyrir almenningi á laugardaginn í Kringlunni í tilefni þess að opnað var fyrir æfingar fyrir fötluð börn um helgina.

Landsliðsmenn í körfubolta prófuðu að spila körfubolta í hjólastól og viðurkenndu að það væri svolítið erfiðara.

Tvö íþróttafélög ÍR og Fjölnir hófu æfingar í hjólastólakörfubolta í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á slíkar æfingar og er þetta liður í verkefninu Allir með sem gengur út á það að virkja börn með fötlun til að stunda íþróttir en aðeins fjögur prósent barna með fötlun æfa skipulagða íþrótt á Íslandi.

„Börn með skerta hreyfigetu búa auðvitað alls staðar í borginni og okkur finnst mikilvægt að geta boðið upp á æfingar hjá ÍR fyrir ÍR-inga óháð hreyfigetu, þannig að við erum sjúklega spennt,“ segir Jóhann Dýrunn Jónsdóttir varaformaður körfuknattleiksdeildar ÍR.

Fólk mun taka eftir þessu

„Þetta er hrikalega skemmtilegt sport og fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir því hvað það er mikill hraði í þessu og ákefð og kraftur. Þannig að það er rosalega gaman að horfa á þetta og ég held að fólk muni taka eftir þessu í náinni framtíð,“ segir Pálmar Ragnarsson körfuboltaþjálfari hjá Val.

Um er ræða sér útbúna hjólastóla og fengu börn að prófa stólana í Kringlunni um helgina. Landsliðsmenn í íþróttinni prófuðu líka. Þau Orri Gunnarsson, Thelma Dís Ágústsdóttir, Sara Hinriksdóttir og Kristinn Pálsson létu sig ekki vanta.

„Þetta er lúmskt erfitt, bæði að vera í stólnum og ná jafnvægi og drippla og skjóta, þetta er allt annað,“ segir Sara.

„Þetta er rosalega erfitt og kom á óvart. Þetta reynir mikið á efri skrokkinn en mjög skemmtilegt,“ segir Kristinn Pálsson en drengirnir í VÆB fengu líka að prófa eins og sjá má í frétt Stöðvar 2 um málin hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×