Fótbolti

Nasistakveðjur, Ísrael og Palestína á Evrópukvöldi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stuðningsfólk Galatasaray hefur sýnt fána á við þennan á hverjum einasta Evrópuleik liðsins í vetur. Þessi var sýndur á leik liðsins við Tottenham í nóvember.
Stuðningsfólk Galatasaray hefur sýnt fána á við þennan á hverjum einasta Evrópuleik liðsins í vetur. Þessi var sýndur á leik liðsins við Tottenham í nóvember. Elif Ozturk/Anadolu via Getty Images

Sama hvað UEFA og aðrar alþjóðlegar fótboltastofnanir segja keppnir á þeirra vegum vera ópólitískan vettvang er raunin önnur. Það sýndi sig í Evrópuleikjum gærkvöldsins.

Tyrknesk lið voru í eldlínunni í gær en Tyrkland er múslimaríki. Stuðningsmenn tyrkneskra liða hafa ítrekað sýnt stuðning sinn við Palestínu í deilunni við Ísrael undanfarin ár.

Stuðningsmenn Galatasaray, sem mætti AZ Alkmaar frá Hollandi í Istanbúl í gærkvöld, brugðu ekki út af vananum. Þeir heiðruðu stuðningsfólk Celtic í Skotlandi og þökkuðu fyrir stuðning þess við Palestínu.

„Við þökkum stuðningsfólki Celtic fyrir þeirra óbilandi stuðning við Palestínu“ segir á borðanum sem stuðningsmenn Galatasaray sýndu á leiknum við AZ Alkmaar í gærkvöld.Skjáskot

Aðdáendur Celtic hafa reglulega veifað palestínskum fánum og sýnt borða til að sýna stuðning. Oft á kostnað félagsins sem hefur þurft að greiða marga sektina til UEFA vegna pólitískra skilaboða, sem samkvæmt alþjóðasambandinu eiga ekki heima á fótboltavelli.

Annað tyrkneskt lið, Fenebahce, grannlið Galatasaray í Istanbúl, átti útileik við belgíska liðið Anderlecht í Brussel. Svokallaðir stuðningsmenn belgíska liðsins sýndu af sér skammarlega hegðun með ítrekuðu kynþáttaníði í garð leikmanna Fenebahce.

Gott sem upp úr sauð á tímabili þegar leikmenn beggja liða sögðu stuðningsmönnunum að hætta níðinu. Einhverjir í stúkunni sáust þá setja höndina upp að nasistasið. Myndskeið af atvikinu má sjá í spilaranum.

Búast má við að UEFA sekti bæði Galatasaray og Anderlecht vegna uppákomanna.

Báðum ofannefndum leikjum lauk með 2-2 jafntefli. AZ Alkmaar fór áfram eftir 4-1 sigur í Hollandi, samanlagt 6-3. Fenerbahce fór þá áfram, eftir samanlagðan 5-2 sigur á Anderlecht.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×