Eftir að einn af ritstjórum matarvefs New York Times greindi frá því að ættingi hefði keypt fjórar flöskur af koníaki áður en þær hækkuðu í verði, ákvað ritstjórnin að leita til lesenda og spyrja þá að því hvort þeir væru farnir að safna birgðum.
Um 250 lesendur svöruðu og efst á listanum voru kaffi, hlynsíróp og ólífuolía.
„Daginn eftir að Kólumbíu var hótað með tollum fór ég í Costco og keypti 16 pund af kaffi. Ég kalla þetta varabirgðirnar mínar. Mér finnst gott að horfa á þær. Þá upplifi ég öryggi,“ sagði Mary Corbett í San Diego.
Sextán pund jafngilda rúmum sjö kílóum.
„Hlynsíróp. Lífið hefur engan tilgang án hlynsíróps,“ sagði Geoffrey Wren í Portland en yfir 30 svarendur sögðust ætla að birgja sig upp af hlynsírópi ef af yrði að tollar yrðu hækkaðir á vörur frá Kanada.
Denise Adams í East Northport í New York var meðal þeirra sem sagðist hafa gert magninnkaup á ólífuolíu.
Verð á olíunni hefur þegar hækkað umtalsvert síðustu ár en hamstur á henni er þeim vandkvæðum háð að þegar flaskan hefur verið opnuð dregur úr gæðum olíunnar eftir nokkrar vikur.
Meðal annars sem fólk sagðist hafa í hyggju að birgja sig upp af voru avókadó, niðursoðnar og þurrkaðar baunir og önnur búrvara.