Körfubolti

Á stall með Jordan eftir frammi­stöðu kvöldsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nikola Jokić berst við Isaiah Hartenstein, Chet Holmgren og Shai Gilgeous-Alexander.
Nikola Jokić berst við Isaiah Hartenstein, Chet Holmgren og Shai Gilgeous-Alexander. Joshua Gateley/Getty Images

Shai Gilgeous-Alexander skoraði 40 stig þegar Oklahoma City Thunder lagði Denver Nuggets 127-103 í uppgjöri toppliða Vesturhluta NBA-deildarinnar í körfubolta.

Denver kom inn í leik kvöldsins á góðu skriði. Nikola Jokić varð eini leikmaður sögunnar til að skora 30 stig eða meira ásamt því að taka 20 fráköst eða stoðsendingar (eða meira) í einum og sama leiknum þegar Denver lagði Phoenix Suns í framlengdum leik í gær.

Mögulega voru lappirnar þungar hjá leikmönnum Nuggets eftir framlenginguna. Leikur kvöldsins var nefnilega nokkuð jafn framan af en í 4. leikhluta settu leikmenn OKC í fimmta gír og stungu hreinlega af. Unnu þeir síðasta leikhlutann með 21 stigs mun (41-20) og tryggðu sér 24 stiga sigur.

Þar var að áðurnefndur Shai sem fór fyrir sínum mönnum en hann skoraði 40 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Stigafjöldi hans í dag setur hann í flokk með Michael Jordan. Á síðustu 40 árum eru þeir einu tveir leikmennirnir sem hafa þrjú tímabil í röð spilað þrjá leiki í röð þar sem þeir skora 30 stig eða meira í leik.

Aðrir sem létu til sin taka hjá OKC í kvöld voru Jalen Williams með 26 stig, 9 fráköst og stoðsendingar. Þá skoraði Isaiah Hartenstein 10 stig ásamt því að taka 11 fráköst.

Hjá Denver var Jokić með 24 stig, 13 fráköst og 9 stoðsendingar. Michael Porter Jr. skoraði 24 stig og tók 15 fráköast. Christian Braun skoraði 19 stig og Jamal Murray skoraði 17 stig.

OKC er sem fyrr á toppi Vesturhluta NBA deildarinnar, nú með 52 sigra í 63 leikjum. Denver er í 2. sæti með 41 sigur og 22 töp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×