Skoðun

Sterk og breið sam­tök – tími til að styrkja rödd minni fyrir­tækja

Friðrik Árnason skrifar

Sam­tök ferðaþjónustunnar (SAF) eru ein öflugustu hagsmunasamtök landsins og gegna lykilhlutverki í að móta framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi. Til að samtökin haldi áfram að dafna og vaxa sem sameiginlegur vettvangur okkar allra, er mikilvægt að rödd allra félagsmanna heyrist – jafnt stórra sem smárra fyrirtækja, af höfuðborgarsvæðinu sem og af landsbyggðinni.

Stærstur hluti félaga í SAF eru lítil og meðalstór fyrirtæki, dreifð um landið, sem skapa líf, störf og verðmæti í sínum nærumhverfum. Það skiptir því máli að stjórn SAF endurspegli þessa breidd og vinni markvisst að því að gæta hagsmuna allra félaga.

Í komandi stjórnarkosningum vil ég vekja sérstaka athygli á framboði Sævars Guðjónssonar hjá Ferðaþjónustunni Mjóeyri á Eskifirði. Sævar býr að víðtækri reynslu sem rekstraraðili á landsbyggðinni og skilur vel þær áskoranir og tækifæri sem minni fyrirtæki standa frammi fyrir.

Með því að kjósa Sævar gefum við landsbyggðinni og litlum fyrirtækjum sterka rödd innan SAF – rödd sem stendur fyrir sanngirni og jafnvægi í hagsmunabaráttu samtakanna.

Um leið vil ég hvetja öll fyrirtæki í ferðaþjónustu sem ekki eru enn aðilar að SAF að ganga til liðs við samtökin. Með sterkari breidd félaga verður SAF öflugra í hagsmunabaráttu og getur haft enn meiri slagkraft fyrir atvinnugreinina í heild.

Einnig hvet ég félagsmenn til að taka virkan þátt í starfi SAF, meðal annars með því að bjóða sig fram í nefndir samtakanna og taka þátt í viðburðum. Það skiptir máli að sem flestir láti til sín taka, því þannig mótum við samtökin að okkar þörfum og styrkjum þau til framtíðar.

Viljum við að SAF endurspegli fjölbreytileika ferðaþjónustunnar og verði áfram sterk samtök til framtíðar? Þá þurfum við að velja stjórn sem talar fyrir alla.

Kjósum Sævar Guðjónsson í stjórn SAF – fyrir öflugri, breiðari og sterkari samtök!

Höfundur er starfar hjá Hótel Breiðdalsvík & Travel East Iceland.




Skoðun

Sjá meira


×