Þetta kemur fram í fundargerð frá stjórnarfundi KKÍ sem fram fór á þriðjudaginn. Þar segir að málefni fundarins sé trúnaðarmál og að gestirnir sem ræddu við stjórnina hafi óskað eftir nafnleynd. Í fundargerðinni segir:
Gestir greindu frá ósæmilegri hegðun í þeirra garð af hálfu einstaklings innan íþróttahreyfingarinnar.
Stjórn fjallaði um málið sem trúnaðarmál.
Embættismönnum stjórnar falið að fylgja málum eftir í samræmi við umræður á fundinum.
Vísir bar málið undir Guðbjörgu Norðfjörð Elíasdóttur sem á morgun lætur af störfum sem formaður KKÍ, þegar kosið verður á milli Kjartans Freys Ásmundssonar og Kristins Albertssonar um stöðu nýs formanns.
Guðbjörg, sem stýrði fundinum á þriðjudag, segist í raun engu geta bætt við það sem fram komi í fundargerðinni.
„Það voru bara nokkrir aðilar sem komu á fund okkar í stjórninni og lýstu ósæmilegri hegðun af hendi einstaklings. Þessir einstaklingar báðu fyrir trúnaði. Embættismenn stjórnar hafa svo verið settir í þetta mál til að vinna það,“ sagði Guðbjörg. Ljóst er að málið tengist þingi morgundagsins.
„Ástæðan fyrir því að við fáum þetta inn á borð til okkar er körfuknattleiksþingið,“ sagði Guðbjörg en kvaðst því miður ekki geta tjáð sig frekar um málið.