Lífið

Sonur Ringo Starr rekinn úr The Who

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Starkey á tónleikum með The Who árið 2006.
Starkey á tónleikum með The Who árið 2006. EPA

Zak Starkey trommuleikara bresku rokkhljómsveitarinnar The Who hefur að sögn verið bolað úr hljómsveitinni eftir þrjátíu ára samstarf. Hljómsveitin segir ákvörðunina sameiginlega. 

Brottrekstur Starkey má samkvæmt umfjöllun Sky rekja til styrktartónleika The Who fyrir krabbameinsveikt ungt fólk sem haldnir voru í mars. Í tónleikagagnrýni sem birt var á breska miðlinum Metro segir að Roger Daltrey, aðalsöngvari hljómsveitarinnar, hafi á tónleikunum verið sýnilega pirraður út í frammistöðu Starkey það kvöld. 

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem The Who sendi frá sér fyrr í vikunni segir að sameiginleg ákvörðun hafi verið tekin um að Starkey segði skilið við hljómsveitina. 

Starkey segir aftur á móti í yfirlýsingu til Rolling Stone að brottreksturinn komi honum á óvart.

„Eftir að hafa spilað þessi lög öll þessi ár kemur þetta mér verulega á óvart og það hryggir mig að heyra að einhverjum hafi mislíkað frammistöðu mína þetta kvöld. En hvað er til ráða?“

Starkey gekk í hljómsveitina árið 1996. Upprunalegur trommari hljómsveitarinnar, Keith Moon, lést árið 1978 og segir Starkey mikinn heiður að hafa fengið að feta í fótspor Keith „frænda“, en Moon var fjölskylduvinur Starkey. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.