KR og Hamar/Þór eru í úrslitum umspilsins um sæti í Bónus-deild kvenna á næstu leiktíð. Eftir sigur í fyrsta leik liðanna var ljóst að sigur í kvöld myndi koma KR í kjörstöðu.
Leikur kvöldsins var hnífjafn framan af og munaði aðeins stigi á liðunum í hálfleik. KR náði örlitlu forskoti í þriðja leikhluta sem dugði á endanum til sigurs, lokatölur 83-78.
Rebekka Rut Steingrímsdóttir var stigahæst í KR með 24 stig ásamt því að gefa fjórar stoðsendingar og taka fjögur fráköst. Þar á eftir kom Cheah Emountainspring Rael Whitsitt með 19 stig en hún tók einnig 14 fráköst.
Abby Claire Beeman var að venju stigahæst hjá Hamar/Þór. Hún skoraði 26 stig, gaf 10 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Anna Soffía Lárusdóttir kom þar á eftir með 19 stig ásamt því að taka 5 fráköst og gefa 2 stoðsendingar.