Körfubolti

„Flæðið í sóknar­leiknum var frá­bært“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Emil Barja sá eðlilega fjölmargt jákvætt við leik sinna kvenna í kvöld. 
Emil Barja sá eðlilega fjölmargt jákvætt við leik sinna kvenna í kvöld.  Vísir / Hulda Margrét

Emil Barja var sáttur við glæsilegan sigur Hauka gegn Val í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Bónus-deildar kvenna í körfubolta. Emil minnti hins vegar á mikilvægi þess að svífa ekki of nálægt sólinni. 

„Samvinnan í liðinu, sérstaklega í sóknarleiknum var frábær. Það eru sex leikmenn að skora meira en 10 stig og það er mjög jákvætt. Pressan leit vel út en þetta mun ekki ganga svona vel út held ég út seríuna. Þær koma líklega með einhver svör við þessu“, sagði Emil Barja, þjálfari Hauka, sáttar eftir að leiknum lauk.

„Það pirrar mig samt aftur á móti að þær vinna okkur í frákastabaráttunni. Við höfum þá bara eitthvað til þess að fara yfir og freista þess að laga í næsta leik. Það er nóg eftir af þessu einvígi og við megum ekki fara upp í skýin,“ sagði Emil enn fremur.

„Eins og ég segi og mun impra á við mína leikmenn. Þetta er bara einn leikur og einn sigur. Við þurfum að halda áfram að spila af þessari ákefð og halda baráttunni út alla seríuna. Við þurfum að fínpússa ákveðna hluti líka til þess að koma okkur í úrslitin sem er klárlega stefnan,“ sagði hann um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×