Körfubolti

Ein­hentur en ætlar í nýliðaval NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hansel-Emmanuel á ferðinni með boltann í körfuboltaleik.
Hansel-Emmanuel á ferðinni með boltann í körfuboltaleik. Getty/John Jones

Dóminíska körfuboltamanninum Hansel Emmanuel dreymir um að spila í NBA deildinni í körfubolta. Þangað er mjög erfitt að komast fyrir hvern sem er hvað þá þegar þú ert bókstaflega með einni hendi færri en keppinautarnir.

Hinn 21 árs gamli Emmanuel hefur vakið athygli síðustu ár fyrir að spila einhentur með háskólaliðum Northwestern State og Austin Peay.

Hann er 198 sentimetrar á hæð og er mikill íþróttamaður sem hefur boðið upp á mörg flott tilþrif eins og troðslur, þristar og flottar sendingar. Hann lætur fötlun sína ekki stoppa sig,

Emmanuel missti vinstri hendi sína þegar hann var aðeins sex ára gamall. Hún lenti undir vegg sem hrundi og hann sat festur í tvo klukkutíma. Það þurfti að taka hendina af rétt fyrir neðan öxlina.

Emmanuel lá á spítalanum í sex mánuði en hann gafst ekki upp þrátt fyrir þetta mikla mótlæti.

Hann hefur spilað körfubolta upp allan sinn menntaskóla- og háskólaferil og nú ætlar hann sér að reyna að komast í NBA. Samkvæmt fréttum frá Bandaríkjunum þá hefur hann skráð sig í nýliðavalið í ár.

Það er erfitt að sjá drauminn hans rætast en hver veit. Þú kemst ekki að því nema ef þú lætur reyna á það. Emmanuel hefur þegar sýnt það og sannað.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×