Viðskipti innlent

Frí­höfnin fær nýtt nafn og verður lokað um tíma í vikunni

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Fríhafnarverslanir í Keflavík verða allar lokaðar frá því annað kvöld og fram á miðvikudagsmorgun, bæði í komu- og brottfararsal og við hlið.
Fríhafnarverslanir í Keflavík verða allar lokaðar frá því annað kvöld og fram á miðvikudagsmorgun, bæði í komu- og brottfararsal og við hlið. Vísir/Sigurjón

Nýr rekstraraðili tekur við rekstri fríhafnarverslana í Keflavík á miðvikudaginn og verða verslanirnar því lokaðar tímabundið vegna breytinga frá því annað kvöld og fram á miðvikudagsmorgun. Þá opna fríhafnarverslanir í Keflavík undir nýju nafni, Ísland - Duty Free.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá nýjum rekstraraðila þar sem segir ennfremur að aukin áhersla verði lögð á íslensk vörumerki. Tímabundnar lokanir eru boðaðar í nokkrar klukkustundir vegna breytinga sem marka fyrsta skrefið í endurhönnun allra verslana sem stefnt er að að verði lokið á næsta ári að því er segir í tilkynningunni. 

Þannig munu allar fríhafnarverslanir loka tímabundið annað kvöld sem hér segir: 

  • Brottfararverslun: Lokar 6. maí kl. 20:00 og opnar aftur 7. maí kl. 04:00
  • Komuverslun: Lokar 6. maí kl. 23:00 og opnar aftur 7. maí kl. 07:00.
  • Verslun við brottfararhlið: Lokar 6. maí kl. 20:00 og opnar aftur 7. maí kl. 9:00.

Fram kemur í tilkynningunni að á meðan lokun stendur fái farþegar sem ekki geti verslað 20% afsláttarmiða sem gildir í eitt ár og verður hægt að nota í verslunum Ísland Duty Free. „Með opnun Ísland – Duty Free mun vöruframboðið taka nokkrum breytingum og vöruúrval aukast en sérstök áhersla verður lögð á fjölbreytt framboð íslenskra vörumerkja þar sem að lágmarki 30% af öllu vöruframboði verður íslenskt,“ segir í tilkynningunni. 

Umdeildar breytingar sagðar ýta undir einokun

Fyrirhugaðar breytingar á rekstri fríhafnarverslana hafa verið nokkuð umdeildar að undanförnu. Fram hefur komið í fréttum að það er þýska fyrirtækið Heinemann sem tekur við rekstri fríhafnarinnar að undangengnu útboðsferli um sérleyfi til reksturs verslunarinnar sem fram fór í fyrra. Félag atvinnurekenda hefur til að mynda lýst áhyggjum af því að nýr rekstraraðili hafi krafið framleiðendur um að lækka vöruverð, en framkvæmdastjóri félagsins hefur sagt íslenska ríkið hafa með þessu framselt Heinemann einokunarstöðu á Keflavíkurflugvelli. 

Fjármála- og efnahagsráðherra deilir hins vegar ekki þeim áhyggjum Félags atvinnurekenda en haft var eftir ráherranum í fréttum á dögunum að „í markaðshagkerfi þurfa menn bara að synda.“

Markmiðið að gera upplifun viðskiptavina sem ánægjulegasta

Ekki er vikið að þessum áhyggjum í tilkynningu nýs rekstraraðila en haft er eftir Frank Hansen, framkvæmdastjóra Ísland Duty Free, í tilkynningunni að um sé að ræða ánægjuleg tímamót. 

„Við höfum einsett okkur að bjóða viðskiptavinum okkar upp á framúrskarandi úrval af erlendum og íslenskum vörum. Þær breytingar sem við erum að gera á verslununum er eingöngu fyrsta skrefið í vegferð næsta árið, þar sem verslanir okkar í Keflavík verða endurhannaðar með það að markmiði að gera upplifun viðskiptavina sem ánægjulegasta. Þegar verslanir okkar verða komnar í sína endanlegu mynd á næsta ári mun það ekki fara fram hjá nokkrum sem þar verslar að hann er staddur á Íslandi, það mun endurspeglast í hönnun, miklu úrvali af íslenskum vörumog fjölbreyttum tilboðum til okkar viðskiptavina,“ er haft eftir Frank í tilkynningunni.

Meðfylgjandi mynd sem barst ásamt fréttatilkynningunni sem sýnir hvernig hönnun verslananna mun líta út þegar endanlegt útlit lítur dagsins ljós á næsta ári. 

Einhvern veginn svona mun fríhafnarverslun Ísland Duty Free líta út.Ísland – Duty Free





Fleiri fréttir

Sjá meira


×