Sport

Lést á leiðinni á æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josaia Raisuqe í leik með liði sínu Castres. Liðsfélagar hans voru að bíða eftir honum mæta á æfingu þegar fréttist af slysinu.
Josaia Raisuqe í leik með liði sínu Castres. Liðsfélagar hans voru að bíða eftir honum mæta á æfingu þegar fréttist af slysinu. Getty/David Davies

Ruðningsstjarnan Josaia Raisuqe lést í gær eftir hræðilegt slys sem varð þegar hann var á leið á æfingu með liði sínu.

Franska íþróttablaðið L’Équipe og fleiri franskir miðlar segja frá þessum örlögum Raisuqe.

Raisuqe lést eftir að bíll hans varð fyrir lest. Bílinn var staddur á lestarteinunum þegar lestin kom afvífandi með þessum skelfilegu afleiðingum. Það er ekki vitað af hverju bílinn var staddur á teinunum þegar von var á lestinni.

Raisuqe spilaði með rugby liðinu Castres Olympique og var þarna á leiðinni á æfingu liðsins en slysið varð snemma morguns.

Liðsfélagar hans fengu fréttirnar á æfingunni en hún var leyst upp í framhaldinu og þeir fóru heim. Félagið hefur skipulagt að leikmennirnir fái áfallahjálp vegna þessarar hræðilegu upplifunar.

„Okkur þykir það mjög leitt að þurfa flytja ykkur þær hörmulegu fréttir að leikmaður okkar Josaia Raisuqe hafi látist í umferðarslysi. Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og skyldmenna,“ skrifaði Castres Olympique á samfélagsmiðla sína.

Raisuqe var silfurverðlaunahafi frá því á Ólympíuleikunum í París þar sem hann vann silfur með liði Fiji í sjö manna rugby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×