Erlent

Hátt­settur sænskur diplómati hand­tekinn fyrir njósnir

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mál njósnaradiplómatans og varnarmálaráðgjafa sem sagði ef sér eftir hneykslismál tengjast að sögn sænska ríkisútvarpsins.
Mál njósnaradiplómatans og varnarmálaráðgjafa sem sagði ef sér eftir hneykslismál tengjast að sögn sænska ríkisútvarpsins. Getty

Háttsettur sænskur diplómati hefur verið handtekinn grunaður um njósnir. Samkvæmt heimildum sænska ríkisútvarpsins hefur hann starfað hjá mörgum sendiráðum víða um heim. Grunur er um að málið tengist nýlegri afsögn varnarmálaráðgjafa ríkisstjórnarinnar.

SVT hefur fjallað um málið en upplýsingafulltrúi sænsku öryggislögreglunnar staðfestir í samtali við miðilinn að einstaklingur hafi verið handtekinn í tengslum við grun um njósnir og að rannsókn standi yfir á málinu. Fleiri upplýsingar vildi Säpo ekki veita.

Samkvæmt heimildum sænska ríkisútvarpsins var gerð húsleit heima hjá diplómata sem hefur unnið í utanríkisþjónustunni í mörg ár. Myndir sem miðillinn hafi undir höndum sýni að dyrnar á heimili hans hafi verið brotnar upp.

„Í þessari frumrannsókn öryggislögreglunnar hefur verið gripið til fjölda aðgerða, þar á meðal handtöku manns sem rökstuddur grunur liggur á að hafa stundað njósnir. Þetta er auðvitað grunur um alvarlegt, refsivert athæfi. Rannsóknin verður nú að renna sitt skeið og ég get ekki haft áhrif á hana,“ hefur SVT eftir Gunnar Strömmer dómsmálaráðherra.

Fram kemur að saksóknarar fari fram á að hinn handtekni verði yfirheyrður um leið og verjandi hefur verið skipaður. Samkvæmt lögmanni hins grunaða segist hann sýkn af öllum sökum og neitar því að hafa gerst uppvís að saknæmu athæfi.

Tobias Thyberg var skipaður öryggisráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar í kjölfar þess að Henrik Landerholm sagði af sér eftir að hafa ítrekað gleymt trúnaðargögnum á glámbekk. Aðeins um hálftíma eftir að tilkynnt hafði verið um ráðningu Tobias fékk ríkisstjórnin sendar ansi klúrar myndir af honum af stefnumótaforritinu Grindr nafnlaust.

Seinna sama dag greindi Tobias Thyberg frá því að hann myndi ekki taka við embættinu og var hann gagnrýndur fyrir að hafa ekki látið ríkisstjórnarliða vita af tilvist myndanna. Handtakan sem lýst er hér að ofan átti sér stað þremur dögum eftir að myndirnar af Tobias bárust ríkisstjórninni. Samkvæmt heimildum SVT er tenging málanna á milli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×