Erlent

Fundu lík fimm skíða­manna nærri Zermatt

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Í bakgrunni sést Rimpfischhorn, þaðan sem tilkynnt var um yfirgefin skíði. 
Í bakgrunni sést Rimpfischhorn, þaðan sem tilkynnt var um yfirgefin skíði.  Getty

Lík fimm skíðamanna fundust nærri skíðasvæðinu í Zermatt í svissnesku Ölpunum í dag. Skíðasvæðið er vinsælt meðal ferðamanna. 

Vegfarendur í klifurferð upp tindinn Rimpfischhorn, sem er rúmlega fjögur þúsund metra hár, tilkynntu í gær um yfirgefin skíði nærri hátindinum. Björgunarsveitir voru í framhaldinu kallaðar til. 

Björgunaraðgerðir fóru fram bæði úr lofti og á jörðu. BBC hefur eftir lögregluyfirvöldum í Valais að líkin fjögur hafi fundist nærri hátindi Adler-jökulsins á svæði þar sem snjóflóð hafði fallið nærri landamærum Ítalíu og Sviss. 

Fimm pör af skíðum fundust við leitina til staðfestingar um að fimm hafi verið í skíðahópnum. Þjóðerni skíðafólksins liggur ekki fyrir og heldur ekki hvaða leið hópurinn hugðist skíða.

Björgunarsveitir á svæðinu sinntu öðru útkalli á föstudagskvöld vegna fjögurra skíðamanna sem voru í sjálfheldu vegna þoku og mikilla vinda. Mönnunum fjórum var bjargað en ekki liggur fyrir hvort veðrið hafi orðið hinum látnu að bana. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×