Erlent

Upp­gröftur að hefjast þar sem allt að 800 börn voru jarð­sett

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Undirbúningur fyrir uppgröftin hefur staðið yfir í nokkurn tíma og hér má sjá sérfræðinga fara yfir svæðið með ratsjá.
Undirbúningur fyrir uppgröftin hefur staðið yfir í nokkurn tíma og hér má sjá sérfræðinga fara yfir svæðið með ratsjá. epa/Aidan Crawley

Uppgröftur er hafinn í Tuam í Galway-sýslu á Írlandi, þar sem talið er að nunnur hafi jarðsett allt að 800 ungabörn sem létust á heimili fyrir mæður og börn á árunum 1925 til 1961.

Stjórnvöld á Írlandi hafa neyðst til að biðjast afsökunar á meðferð á börnum á stofnunum sem reknar voru af ríkinu og trúarreglum. Rannsóknir hafa varpað ljósi á misnotkun og vanrækslu, ekki síst þegar um var að ræða börn ógiftra mæðra.

Á St. Mary´s heimilinu í Tuam, þangað sem óléttar stúlkur voru sendar til að eignast börn sín, er talið að hundruð barna hafi verið jarðsett af Bon Secours-trúarreglunni. Engin gögn eru til um þessar jarðsetningar en upp komst um umfangið þegar sagnfræðingurinn Catherine Corless fann dánarvottorð 796 barna.

Talið er að flest þeirra hafi dáið af náttúrulegum orsökum eða af völdum vannæringar.

Svæðið þar sem börnin voru grafin er nú í miðri íbúðabyggð en hefur verið girt af. Sérstök grafa verður notuð til að skrapa jarðveginn af á áföngum en talið er að flestar líkamsleifarnar séu á um tveggja metra dýpi.

Átjan manna teymi sérfræðinga frá Írlandi, Bretlandi, Ástralíu, Bandaríkjunum, Spáni og Kólumbíu hefur umsjón með uppgreftrinum, sem mun fara fram eins og um lögreglurannsókn sé að ræða.

Um vandasamt verk er að ræða, þar sem talið er að vatnsrennsli á svæðinu kunni að hafa valdið róti á jarðveginum, auk þess sem svæðið liggur nærri öðru svæði þar sem er að finna líkamsleifar frá öðrum tímabilum.

Vonir standa til að erfðarannsóknir muni leiða uppruna barnanna í ljós, þannig að hægt verði að koma þeim í hendur ættingja sinna og jarðsetja með viðeigandi hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×