Erlent

Hótar að beita stríðsmálaráðu­neytinu: „Chipocalypse Now“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Donald Trump líkir sér við persónuna Bill Kilgore úr Apocalypse Now.
Donald Trump líkir sér við persónuna Bill Kilgore úr Apocalypse Now. Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti ýjar að því að hann muni beita nýnefndu stríðsmálaráðuneyti í Chicago-borg til þess að vísa þeim sem dvelja ólöglega í Bandaríkjunum úr landi.

Þetta kemur fram í færslu Trump á eigin samfélagsmiðli, Truth Social, þar sem hann vísar í kvikmynd Francis Ford Coppola frá 1979, Apocalypse Now.

„Ég elska þefinn af brottvísunum á morgnanna,“ skrifar Trump og vísar þar til orða undirofurstans brimbrettaóða Bill Kilgore, sem Robert Duvall lék eftirminnilega í umræddri kvikmynd, en sá sagðist elska lyktina af napalmi. 

Jafnframt birtir Trump mynd, að því er virðist gervigreindarteiknaða, af sjálfum sér í hlutverki Kilgore með yfirskritinni: Chipocalypse Now.

Hér má sjá myndina sem Trump birti á Truth Social.

„Chigago er í þann mund að fara að komast að því hvers vegna við köllum það stríðsmálaráðuneytið,“ skrifar Trump, en greint var frá því fyrr í vikunni að hann hygðist breyta nafni varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna yfir í stríðsmálaráðuneytinu.

Trump hefur undanfarið gefið verulega til kynna að hann muni senda hermenn til Chicago til að vísa ólöglegum innflytjendum úr landi og takast á við glæpi.

Ríkisstjóri Inninois, ríkisins þar sem Chicago er að finna, hefur andmælt þessum áformum forsetans. Hann segist túlka þessa nýjustu færslu Trump á þann veg að „forseti Bandaríkjanna sé að hóta að fara í stríð við ameríska borg“.

„Þetta er ekki brandari. Það er ekkert eðlilegt við þetta. Donald Trump er enginn kraftajötunn. Hann er hræddur maður. Illinois mun ekki láta þessa einræðisherraeftirhermu ógna sér.“


Tengdar fréttir

Kynnir stríðsmálaráðuneytið til leiks

Donald Trump Bandaríkjaforseti ætlar að undirrita forsetatilskipun á morgun þess efnis að nafni varnarmálaráðuneytisins verður breytt í stríðsmálaráðuneytið. Þá verður embættisheiti Pete Hegseth varnarmálaráðherra breytt í stríðsmálaráðherra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×