Viðskipti innlent

Fram­kvæmda­stjórar kveðja og sviðum stokkað upp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margrét og Hinrik hætta sem framkvæmdastjórar hjá Advania.
Margrét og Hinrik hætta sem framkvæmdastjórar hjá Advania.

Tveir framkvæmdastjórar láta af störfum hjá Advania í kjölfar breytinga á skipuriti fyrirtækisins. Margrét Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri vaxtar og viðskiptaþróunar, og Hinrik Sigurður Jóhannesson, framkvæmdastjóri mannauðs og ferla, yfirgefa fyrirtækið.

Samhliða þessum breytingum ætlar Advania að styrkja stöðu sína á sviði gervigreindar og netöryggis. Þórður Ingi Guðmundsson, sem starfað hefur innan viðskiptalausna fyrirtækisins frá árinu 2019, tekur við sem forstöðumaður nýs Gervigreindarseturs Advania. Þá hefur Guðmundur Arnar Sigmundsson, áður forstöðumaður netöryggissveitarinnar CERT-IS hjá utanríkisráðuneytinu, gengið til liðs við Advania sem netöryggis- og gagnaþróunarstjóri.

Guðmundur Arnar Sigmundsson er genginn til liðs við Advania.

Þessi tvö nýju svið verða hluti af nýstofnaðri Skrifstofu stefnumótunar sem heyrir beint undir forstjóra, Hildi Einarsdóttur. 

„Það er gríðarlega ánægjulegt að fá jafn öfluga leiðtoga og Guðmund og Þórð til að leiða þessa málaflokka,“ segir Hildur í tilkynningu.

Jafnframt hefur verið stofnað nýtt sameinað stoðsvið fjármála, mannauðs og samskipta undir stjórn Örnu Bjarkar Sigurgeirsdóttur, sem hefur þegar leitt fjármálasvið Advania frá árinu 2023.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×