Erlent

Rýnt í ákærurnar: „Ég fékk nóg af hatri hans“

Samúel Karl Ólason skrifar
Úr dómsal í Utah í gær, þar sem Tyler Robinson birtist gegnum fjarfundarbúnað.
Úr dómsal í Utah í gær, þar sem Tyler Robinson birtist gegnum fjarfundarbúnað. AP/Scott G. Winterton, The Deseret News

Yfirvöld í Utah í Bandaríkjunum birtu í gærkvöldi nýjar upplýsingar um manninn sem grunaður er um að hafa myrt Charlie Kirk, áhrifamikinn áhrifavald á hægri væng stjórnmála í Bandaríkjunum, í síðustu viku. Hinn 22 ára gamli Tyler Robinson hefur verið ákærður í sjö liðum og stendur frammi fyrir dauðarefsingu vegna morðsins.

Robinson var færður fyrir dómara í fyrsta sinn í gær, þegar ákærurnar voru opinberaðar, en það var gegnum fjarfundarbúnað. Þá kom fram að Robinson hefði ekki lögmann en dómarinn sagði að honum yrði útvegaður lögmaður en hann á ekki séns á því að vera sleppt lausum gegn tryggingu.

Sjá einnig: Fara fram á dauðarefsingu yfir Robinson

Samhliða því voru ákærurnar gegn Robinson birtar en skjalið gefur til kynna að hann hafi skipulagt launmorðið í um viku áður en hann skaut Kirk. Þetta mun hafa komið fram í bréfi sem fannst undir lyklaborði hans en mynd af því rataði til lögreglunnar

Kirk var skotinn til bana þann 10. september, á fjölmennum viðburði á lóð háskóla í Utah. Talið er að Robinson hafi myrt Kirk vegna pólitískra skoðana hans.

Sjá einnig: Hver var Charlie Kirk?

Ákæruskjalið gegn Robinson inniheldur engar upplýsingar um að hann hafi á einhvern hátt unnið með einhverjum öðrum. Hvorki einstaklingum eða einhverskonar öflugum vinstri sinnuðum samtökum, sem Donald Trump og háttsettir embættismenn hafa sagt að komið hafi að morðinu á Kirk.

Áhugasamir geta lesið ákæruskjalið hér.

„Kíktu undir lyklaborðið mitt“

Í ákæruskjalinu kemur meðal annars fram að rannsakendur hafa komið höndum yfir skilaboð Robinsons til sambýliskonu sinnar, transkonu sem hann var í sambandi með sem er lýst í skjalinu sem „líffræðilegum karlmanni“ (Biological male) í leiðréttingarferli. Hún afhenti lögreglunni skilaboðin en þar játaði Robinson að hafa myrt Kirk.

Hann sendi henni skilaboð og sagði henni að kíkja undir lyklaborðið hans, þar sem hún fann áðurnefndan miða en á honum stóð:

„Ég hafði tækifæri til að ganga frá Charlie Kirk og ég ætla að nýta það.“

Hún spurði hvort hann væri ekki að grínast og Robinson svaraði á þá leið að hann kæmist ekki heim alveg strax. Hann þyrfti að sækja riffillinn sinn. Hann hefði vonast til þess að ekki myndi komast upp með hann og baðst hann afsökunar á að hafa dregið hana inn í málið.

Þá spurði hún aftur hvort hann hefði skotið Kirk. Hann játaði það og baðst afsökunar.

Hún spurði af hverju hann hefði skotið Kirk og Robinsons sagðist þá hafa „fengið nóg af hatri“ hans. Hann sagðist ætla að reyna að ná rifflinum án þess að vera séður og þá gæti hann mögulega komist upp með morðið.

Robinson sagðist hafa skipulagt morðið í rétt rúma viku.

Bað sambýliskonuna um að eyða skilaboðunum

Því næst sendi Robinson henni fjölda skilaboða um riffillinn, sem hafi verið í eigu afa hans og að hann vildi ná honum en þorði ekki að fara þangað þar sem hann hefði skilið hann eftir.

Hann sagðist einnig hafa skrifað á skotin og skothylkin sem hann notaði og að það hefði að mestu verið grín, eða „meme“, sem hann vonaðist til að sjá í fjölmiðlum ytra. Á skotin skrifaði hann tilvísanir í tölvuleiki og baráttu gegn fasisma.

Robinson bað síðan sambýliskonu sína um að eyða samskiptum þeirra. Faðir hans væri að hringja í hann og senda honum skilaboð um að hann ætti að senda mynd af rifflinum og vildi vita hvar hann væri. Þá sagði hann að faðir sinn væri mikill stuðningsmaður Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna.

Að endingu kemur fram í skjölunum að Robinson hafi sent sambýliskonu sinni skilaboð um að hann ætlaði að gefa sig fram og bað hann hana um að ræða ekki við fjölmiðla. Hann bað hana einnig um að ræða ekki við lögregluþjóna en hún virðist ekki hafa farið eftir því.

Netgrín skrifað á skotin

Á skotum og skothylkjum sem rannsakendur fundu í riffli Robinson fundust brandarar eða meme sem tengjast flestir ákveðinni netmenningu ungra manna. Eins og áður hefur komið fram lýsti Robinson þessu sem almennu gríni eða nettröllaskap.

Fjögur skothylki fundust í rifflinum en búið var að skjóta skoti úr einu þeirra. Á því hylki stóð: „NoTices Bulge OWO What‘s This?“

Þar er um að ræða þekkt meme á netinu sem snýr að hlutverkaleik og furry samfélaginu svokallaða. Þetta orðatiltæki, ef svo má kalla, ku vera notað til að gera grín að fólki á spjallþráðum á netinu.

Á öðru skotinu stóð: „Hey Facist! Catch!“ og nokkrar örvar.

Þarna er um að ræða tilvísun í leikinn Helldivers 2 þar sem hægt er að nota sömu örvaröð til að kalla eftir loftárás. Helldivers 2 er satíra þar sem spilarar berjast gegn geimverum fyrir fasísk yfirvöld jarðarinnar.

Á þriðja skotinu stóð: „O Bella ciao, Bella ciao, Bella ciao Ciao, ciao!“

Þarna er að öllum líkindum um að ræða tilvísun í ítalskt lag sem varð vinsælt eftir seinni heimsstyrjöldina og fall fasistastjórnar Benito Mussolini og hefur á undanförnum árum notið nýrra vinsælda. Kannski sérstaklega í leiknum Far Cry 6, þar sem spilarar taka þátt í uppreisn gegn fasískum yfirvöldum ímyndaðs ríkis.

Á fjórða skotinu stóð: „If you Read This, You Are GAY Lmao“.

Þetta þýðir: „Ef þú lest þetta ertu hommi, haha“. Óljóst er hvort þetta sé sérstök tilvísun eða einfaldlega almenn móðgun einhverskonar.

Jeff Gray, saksóknari í Utah, mun sækja málið gegn Robinson. Hann hélt blaðamannafund í gær þar sem hann fór yfir ákærurnar.AP/Alex Goodlett

Varð pólitískari

Eftir að yfirvöld í Utah birtu myndir af Robinson og báðu um ábendingar um hver hann væri, þekktu foreldrar hans hann á myndunum. Á endanum sannfærðu þau hann um að gefa sig fram.

Í samtali við rannsakendur sagði móðir Robinsons að hann hefði orðið pólitískari og vinstri sinnaðri á undanförnu ári eða svo. Hann hafi lagt mikla áherslu á réttindi hinsegin fólks.

Hún sagði einnig að eftir að hann byrjaði í sambandi með sambýliskonu sinni hafi það ítrekað leitt til samtala við fjölskyldu hans og sérstaklega föður hans. Þeir hafi verið með mjög ólíkar pólitískar skoðanir.

Þá sagði hún að í aðdraganda morðsins hafi Charlie Kirk verið til umræðu. Robinson hafi nefnt að hann yrði með viðburð í háskólanum og sagt að Kirk væri að dreifa hatri.

Tyler Robinson, eftir að hann gaf sig fram.AP/Ríkisstjóri Utah

Sagðist vilja svipta sig lífi

Faðir Robinsons sagði frá því að kona hans hefði fyrst sýnt honum myndirnar af Robinson og að þau hafi verið sammála um að þarna væri um son þeirra að ræða. Hann hafi einnig verið sannfærður um að riffillinn sem lögreglan hafði birt myndir af væri sama byssa og Robinson hefði fengið að gjöf.

Þegar þau náðu tali af Robinson sagðist hann ætla að svipta sig lífi en þau sannfærðu hann um að gera það ekki og koma heim, sem hann gerði. Þar mun hann hafa játað fyrir þeim að hafa skotið Kirk til bana. Þá sagðist hann ekki vilja fara í fangelsi og sagðist vilja deyja.

Þau segjast hafa spurt hann af hverju hann skaut Kirk og segja Robinson hafa svarað á þá leið að heimurinn væri of fullur af illsku og að Kirk dreifði of miklu hatri.

Að endingu sannfærðu þau hann um að gefa sig fram við nágranna þeirra og fjölskylduvin sem er lögregluþjónn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×