Skoðun

Heiðurs­gestur Við­reisnar vill heims­veldi

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Meðal þess sem fram kom í ræðu Guy Verhofstadt, forseta European Movement International, á landsþingi Viðreisnar um helgina, þar sem hann var heiðursgestur, var að Evrópusambandið þyrfti að verða að heimsveldi (e. empire). „Ég kalla það heimsveldi hinna góðu,“ sagði hann en til þessa hefur hann einkum verið þekktur fyrir áherzlu sína á að sambandið yrði að sambandsriki. Var ræðunni fagnað með dynjandi lófataki standandi landsþingsfulltrúa Viðreisnar.

Markmiðið með samrunanum innan Evrópusambandsins og forvera þess hefur frá upphafi verið að til yrði sambandsríki og hefur sambandið síðan jafnt og þétt öðlast fleiri einkenni ríkis. Hefur verið leitun að forystumönnum innan Evrópusambandsins sem ekki stutt þetta þetta lokamarkmið samrunaþróunarinnar innan þess þó fáir hafi gengið eins afdráttarlaust fram í þeim efnum og Verhofstadt. Nú hefur Verhofstadt hins vegar ljóslega uppfært sambandsríkið í heimsveldi.

Varðandi European Movement International, sem Verhofstadt fer fyrir, hafa samtökin haft það markmið frá stofnun árið 1947 að til yrði evrópskt sambandsríki. Verhofstadt situr enn fremur í stjórn samtakanna Spinelli Group sem hann stofnaði og beita sér fyrir sama markmiði. Þá ritaði á sínum tíma bók um málið sem ber einfaldlega heitið United States of Europe. Verhofstadt var gestur landsþings Viðreisnar sem forseti European Movement International og kynntur sem slíkur.

„Við þurfum að verða sambandsríki sem er ekki bundið af kröfum um einróma samþykki eða skortir viðeigandi valdheimildir í utanríkis- og öryggismálum,“ segir meðal annars í aðsendri grein sem birtist á fréttavefnum Politico 8. september síðastliðinn eftir Verhofstadt, Josep Borrell, fyrrverandi utanríkismálaráðherra Evrópusambandsins, og Domènec Ruiz Devesa, forseta Union of European Federalists. Hefur áherzlan á sambandsríki verið hans ær og kýr árum saman.

Spurð af fjölmiðlum út í áralanga áherzlu Verhofstadts á evrópskt sambandsríki sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, að aðeins væri um að ræða hans persónulegu skoðanir. Hún var hins vegar ekki spurð út í áherzlu European Movement International á málið í ljósi þess að Verhofstadt var boðið á landsþingið sem fulltrúi þeirra. Þá hefði ekki verið úr vegi að spyrja Þorgerði út í tal hans um stofnun evrópsks heimsveldis.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Skoðun

Þúsundir kusu Sönnu

Anna Bentína Hermansen Einarsdóttir,Ármann Hákon Gunnarsson,Baldvin Björgvinsson,Brynja Guðnadóttir,Haraldur Ingi Haraldsson,Jón Hallur Haraldsson,Kolbrún Erna Pétursdóttir,Ólafur H. Ólafsson,Rakel Hildardóttir,Sigrún Jónsdóttir skrifar

Sjá meira


×