Viðskipti innlent

Ómögu­legt að meta niður­stöðuna á bankana

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Már segir að svo virðist sem áhrifin af Vaxtadóminum verði takmörkuð hjá Íslandsbanka þar sem vextir breytilegra lána hækkuðu ekki jafnmikið og stýrivextir Seðlabankans.
Már segir að svo virðist sem áhrifin af Vaxtadóminum verði takmörkuð hjá Íslandsbanka þar sem vextir breytilegra lána hækkuðu ekki jafnmikið og stýrivextir Seðlabankans. Vísir/Ívar Fannar

Már Wolfgang Mixa, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, segir ómögulegt að meta niðurstöðu Hæstaréttar í Vaxtamálinu svokallaða í fljótu bragði. Fjárhagsleg áhrif séu hugsanlega ekki eins mikil og talið var mögulegt áður. Í framhaldinu þurfi fjármálastofnanir að hafa mun skýrari vaxtaviðmið í lánum með breytilegum vöxtum.

Hæstiréttur kvað um dóm í Vaxtamálinu í dag, þar sem niðurstaðan varð sú að umdeildir skilmálar í lánasamningi voru ógiltir. Málið var höfðað á hendur Íslandsbanka af tveimur lánþegum og varðaði meinta ólögmæta skilmála í samningum um óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum.

Skynsamlegt að fjármálastofnanir verði samtaka í að miða við vaxtaviðmið

Már Wolfgang segir að það megi velta því fyrir sér í kjölfar dómsins hvort það væri ekki skynsamlegt að fjármálastofnanir verði samtaka í að miða við eitthvað vaxtaviðmið.

Að hans mati ætti það viðmið að miðast við löng ríkisbréf.

Það kæmi honum ekki á óvart að svona dómur yrði fordæmisgefandi, og fólk þurfi ekki sjálft að standa í því að fá leiðréttingu á sínu láni.

„Mér þætti það óeðlilegt að einstaklingar þyrftu að fara standa í slíku. Frekar að það myndi vera einhver lína lögð sem myndi gilda fyrir alla.“

Í dóminum standi ekkert um það við hvað fjármálastofnanir þurfi að miða við, viðmiðin þurfi bara að vera skýr.

Best væri ef það væru sömu viðmið hjá öllum helstu bönkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×