Erlent

Gagn­rýndur fyrir um­mæli um ógn af hálfu inn­flytj­enda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Merz hefur verið sakaður um að daðra við popúlisma í innflytjendamálum.
Merz hefur verið sakaður um að daðra við popúlisma í innflytjendamálum. Getty/Thomas Banneyer

Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, hefur verið sakaður um „hættulega“ orðræðu um innflytjendur, eftir að hann sagði að ráðast þyrfti í umfangsmikinn brottflutning þeirra úr borgum landsins.

„Ég veit ekki hvort þú átt börn og þeirra á meðal dætur,“ svaraði Merz í gær, þegar blaðamaður spurði hann hvort hann vildi endurskoða ummæli sín eða biðjast afsökunar.

„Spurðu dætur þínar. Mig grunar að þú munir fá mjög hreint og klárt svar. Það er ekkert sem ég vil taka til baka. Þvert á móti vil ég ítreka að við verðum að ráðast í breytingar.“

Merz hefur gagnrýnt forvera sinn, Angelu Merkel, fyrir linkind í innflytjendamálum og gert því skóna að hún hafi þannig skapað grundvöll fyrir  sókn öfga hægriflokksins AfD, sem tryggði sér yfir 20 prósent atkvæða í síðustu kosningum.

Hann hefur sagt að það sé forgangsmál að tryggja öryggi í almenningsrýmum og að það sé forsenda þess að gömlu flokkarnir öðlist aftur traust fólksins.

Ricarda Lang, þingmaður Græningja, er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt ummæli Merz og sakar hann um að tala niður til ungra kvenna. 

Hún spurði á X hvort „dæturnar“ væru ef til vill búnar að fá nóg af því að Merz væri aðeins hugað um réttindi þeirra og öryggi þegar hann gæti notað það til að réttlæta afturhaldssama stefnu sína.

Sérfræðingar í Þýskalandi segja flokka á borð við Kristilega demókrataflokkinn í auknum mæli leyfa öfga hægrinu að stjórna umræðunni og ljá þannig hugmyndum þeirra og stefnu trúverðugleika.

Merz segir hins vegar verulegan mun á sínum flokki og AfD og gefið til kynna að samstarf sé útilokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×